Er það ekki í sama húsi og Stígamót?

„Hefur þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi?“ spurði starfsmaður hjá Ferðaþjónustu …
„Hefur þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi?“ spurði starfsmaður hjá Ferðaþjónustu fatlaðra konu sem vildi panta far að Laugavegi 170 í Reykjavík. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fötluð kona hefur samband við Ferðaþjónustu fatlaðra og vill panta ferð frá heimili sínu að Heklu, Laugavegi 170 í Reykjavík. Konan sem svarar í símann og tekur á móti pöntuninni spyr hvort það sé ekki í sama húsi og samtökin Stígamót og bætir við: „Fyrirgefðu, ég veit að það kemur mér ekki við en hefur þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi?“

Þetta er eitt þeirra dæma sem kom fram í erindi Helgu Baldvins- og Bjargardóttur, lögfræðings, þroskaþjálfa og sérstaks ráðgjafa Stígamóta fyrir fatlað fólk, á málþingi á vegum Háskólans í Reykjavík eftir hádegi í dag, dæmi um hvernig fólk leyfi sér að vaða inn fyrir persónuleg mörk fatlaðs fólks. Málþingið bar yfirskriftina Fatlaðir þolendur kynferðisbrota og erindi Helgu Aðstoð við fatlaða þolendur kynferðisbrota.

Helga hóf störf hjá Stígamótum í mars árið 2014 og fékk það verkefni að kanna hvað samtökin gætu gert til að ná betur til fatlaðs fólks. Hún hefur meðal annars rætt við erlenda sérfræðinga sem hafa reynslu af því að vinna með fötluðu fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi.

Þá er einnig búið að þýða sænskt fræðsluefni, þar á meðal sænskar stuttmyndir. Bæklingur Stígamóta, sem ætlaður er fólki sem á erfitt með að tjá sig um ofbeldi, var dreift á öll sambýli Reykjavíkur.

Vilja ekki þurfa aðstoða foreldra til að panta tíma

Helga segir í samtali við mbl.is að þegar fólk á erfitt mað að tjá sig sé mikilvægt að það hafi aðgang að einhverjum sem hefur skilning á óhefðbundnum tjáskiptaleiðum og geti talað einfalt mál. Þá sé einnig mikilvægt að þeir sem vinni með fötluðu fólki hafi skilning á jaðarsettri stöðu þess.

Hún segir fatlað fólk oft veigra sér við að leita sér aðstoðar þar sem það hefur ítrekað fengið að heyra það hjá læknum og sálfræðingum að öll vandamál þeirra megi rekja til skerðinga þeirra en ekki til tilfinningalegra áfalla eins og hjá öðrum. „Það að vera meðvituð um alls konar staðalímyndir og fordóma í samfélaginu gerir það að verkum að maður verður betri ráðgjafi fyrir fatlað fólk,“ segir Helga.

Í erindi sínu ræddi hún um þær áskoranir sem enn eru til staðar, þ.e. hvernig ná eigi til þeirra sem eru verst staddir, eiga erfiðast með tjáningu og búa við mikla einangrun.

„Fólk þarf kannski aðkomu starfsfólks eða foreldra til að panta tíma hjá Stígamótum en það vill kannski ekkert endilega vera að tala um svoleiðis ofbeldi við þessa aðila. Það liggur í hlutarins eðli hvað þú ert að fara að ræða ef þú pantar tíma hjá Stígamótum,“ segir Helga.

Stuttmyndin hér að neðan er ein af fimm sænskum stuttmyndum „Det finns stunder“ sem fjalla um ofbeldi gagnvart fötluðum konum. Stígamót fengu leyfi til að þýða og talsetja myndirnar með styrk frá Hlaðvarpanum og Öryrkjabandalagi Íslands. Þessar stuttmyndir eru notaðar í fræðslu- og forvarnarstarfi Stígamóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert