Brenndist á handlegg í Hellisheiðarvirkjun

Slysið varð í stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar í morgun. Myndin er úr …
Slysið varð í stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar í morgun. Myndin er úr safni. mbl.is/Golli

Starfsmaður verktaka brenndist á framhandlegg þegar skammhlaup varð í tengiskáp í stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar sem hann var að vinna við í morgun. Hann var fluttur með meðvitund á slysadeild en Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar, hefur ekki upplýsingar um alvarleika meiðsla hans.

Vinnuslysið átti sér stað um klukkan hálfellefu í morgun en maðurinn, sem er starfsmaður verktaka sem vinnur fyrir Orku náttúrunnar, var að vinna í rafbúnaði þegar skammhlaupið varð með þessum afleiðingum.

Eiríkur segir að kallað hafi verið á sjúkrabíl, lögreglu og vinnueftirlit eins og venja sé þegar vinnuslys verði. Búið hafi verið um manninn á staðnum en gat hann gengið sjálfur frá vettvangi. Hann var síðan fluttur á slysadeild í Reykjavík.

Skammhlaupið varð í tengiskáp í stöðvarhúsi virkjunarinnar. Eiríkur segir að ekki liggi fyrir hvað olli því á þessari stundu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert