Fleiri gámaskrifstofur á Landspítala

Gámaskrifstofurnar rísa við Landspítala í Fossvogi til að losa um …
Gámaskrifstofurnar rísa við Landspítala í Fossvogi til að losa um rými í aðalbyggingunni. Ómar Óskarsson

Reistar verða 18 gámaskrifstofur við Landspítala í Fossvogi í sumar og verða þær tilbúnar 1. september næstkomandi. Með því tekst að losa um rými í aðalbyggingu spítalans sem verður nýtt undir klíníska starfsemi.

Gámaskrifstofur voru reistar við norðurhlið Landspítalans við Hringbraut og teknar í gagnið á síðasta ári. Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítala, segir fólki líka ágætlega í skrifstofunum.

„Þetta er á þremur hæðum á Hringbrautinni og fólki hefur líkað vel,“ segir Ingólfur en í gámaskrifstofunum eru skrifstofur sérfræðinga í meltingarlækningum, hjartaskurðlækna og sviðsskrifstofa rannsóknarsviðs.

Allir leggjast á eitt

Rýmið sem verður til við flutningana í haust verður nýtt undir nýja bráðaskurðstofu og sneiðmyndatæki, þannig að tvö sneiðmyndatæki verða í Fossvoginum. Þá verður ýmsu öðru bætt við, t.a.m. stækkun á vöknun eftir aðgerðir, þ.e. þar sem sjúklingar dvelja eftir aðgerðir. „Það er aukin starfsemi í húsinu og við þurfum meira pláss undir það,“ segir Ingólfur.

Teikningar af fyrirhuguðum gámaskrifstofum við Landspítala í Fossvogi.
Teikningar af fyrirhuguðum gámaskrifstofum við Landspítala í Fossvogi. Teikning/Landspítali

Hann segir það henta vel að ráðast í framkvæmdirnar í sumar þar sem hægt er að nýta kennslustaði og fundarherbergi í byggingunni á meðan. Samdráttur sé yfir sumarið sökum sumarleyfa starfsmanna auk þess sem kennsla fari ekki fram yfir sumartímann.

„Okkur liggur á þessari klínísku starfsemi. Menn þrengja bara að sér á meðan, allir leggjast á eitt að láta þetta ganga,“ segir hann, en öllum framkvæmdum í aðalbyggingunni verður, sem fyrr segir, lokið í lok september á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert