Fara snemma af stað með jólin í ár

Björgvin Halldórsson heldur á hverju ári mikla jólatónleika, Jólagesti Björgvins.
Björgvin Halldórsson heldur á hverju ári mikla jólatónleika, Jólagesti Björgvins. mbl.is

Jólin byrja snemma hjá Senu-fólki, ef til vill full snemma að mati einhverra, en miðar á Jólagesti Björgvins Halldórssonar fara í sölu á næstu vikum. Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu, segir að á undanförnum árum hafi Jólagestir alltaf farið síðastir af stað í miðasölu en nú hafi orðið breyting þar á.

„Með aukinni samkeppni hafa allir fært sig framar og keppast við að vera fyrstir. Við höfum alltaf fengið spurningar um af hverju við séum ekki byrjuð að selja miða og í heilan mánuð erum við einu jólatónleikarnir sem eru ekki komnir í sölu,“ segir Ísleifur.

Sena heldur einnig jólatónleika með óperusöngkonunni Sissel Kyrkjebø í samvinnu við norræna aðila. „Úti eru miðarnir löngu komnir í sölu, þeir eru að birta jólaauglýsingar í blöðunum,“ segir Ísleifur en bætir við að Sena gangi ekki svo langt.

„Við erum bara að uppfæra vefsíðurnar hjá okkur, settum upp Facebook-viðburð og erum með allt klárt. Við erum ekki að trufla neinn sem vill ekki vera truflaður og erum ekki að fara af stað með jólaauglýsingarnar í maí, júní,“ segir Ísleifur og hlær.

Þegar allt kemur til alls eru þetta, jú, tónleikar

Spurður hvort aðsókn á tónleikana í fyrra hafi verið verri en áður og orðið til þess að farið hafi verið svona snemma af stað með miðasöluna svarar hann neitandi. Hann segir hins vegar að það hefði verið hægt að gera betur ef miðasalan hafi farið fyrr af stað. „Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta tónleikar, af hverju ekki að selja fram í tímann?“ segir hann.

Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu.
Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu. Ljósmynd/Sena

Ísleifur segir enn fremur að Jólagestir Björgvins hafa verið haldnir í að verða níu ár og eiga tónleikarnir mjög tryggan markhóp sem mætir ár eftir ár, sama hvað. „Það hefur bara verið voða skrýtið að vera með tilbúna vöru og neita að selja hana í mánuð,“ segir hann um það að fara seint af stað með miðasöluna á undanförnum árum.

Á tónleikunum í ár mæta Gissur Páll, Eyþór Ingi, Friðrik Dór, Ragga Gísla, Svala Björgvins, Jóhanna Guðrún, Ágústa Eva og Þorsteinn Einarsson, upprennandi tónlistarmaður sem gerði nýverið plötusamning við Sony og segir Ísleifur Senu hafa mikla trú á honum.

Hann kveðst ekki vera kominn í jólaskap þrátt fyrir allt þetta umstang í kringum jólatónleikana. „Það er ekkert nýtt í því að við séum að skipuleggja jólatónleika allt árið,“ segir hann léttur í lund en undirbúningurinn hófst strax í janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert