Atkvæði greidd um endurgreiðslu

Lilja Rafney Magnúsdóttir á Alþingi.
Lilja Rafney Magnúsdóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert

Atkvæði voru greidd um hækkun endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi á Alþingi í morgun. Alls fóru sex atkvæðagreiðslur fram og voru allar tillögurnar samþykktar með 41 greiddu atkvæði í hvert sinn. 

Lagt er til að endurgreiðslur til kvikmyndagerðarmanna sem taka upp hérlendis hækki úr 20% í 25%. 

Áður en atkvæðagreiðslan fór fram sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, málið vera mjög gott og góða landkynningu. Koma erlendra kvikmyndagerðarmanna hafi skilað sér vel í tekjum til íslensks samfélags.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra steig í pontu og sagðist gleðjast yfir því að málið væri komið til atkvæðagreiðslu. „Við framsóknarmenn höfum lagt áherslu á þetta mál lengi. Þetta mun skila samfélaginu miklu á næstu árum,“ sagði hann.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þakkaði atvinnuveganefnd fyrir að afgreiða málið svo skjótt til annarrar umræðu og þakkaði fyrir þá miklu samstöðu sem ríkti um það.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði flokkinn styðja málið, enda hafi hækkun endurgreiðslu í för með sér gríðarlega landkynningu.  „Ég vona að þetta eigi eftir að skila okkur enn meiri tekjum,“ sagði hún.

Þriðja umræða um málið á eftir að fara fram og því hefur frumvarpið ekki enn verið fest í lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert