„Stjórnarskrá vill ekki láta breyta sér“

mbl.is/Styrmir Kári

Lögrétta, félag laganema við Háskólann í Reykjavík, bauð í hádeginu til opins fundar með frambjóðendum til embættis forseta Íslands. Efni fundarins var stjórnarskrá Íslands en hver frambjóðandi fékk fimm mínútur til að kynna sig og sínar hugmyndir um stjórnarskrána. 

„Ég tel að þetta ferli hafi hafist með þjóðfundinum, þar sem almenningur var kallaður saman á mjög fallegan hátt til að tala saman. Hann skilaði gildum líkt og heiðarleika, sem hlegið var að þá, en við sjáum núna að í þessu lá grafalvara,“ sagði Andri Snær Magnason, sem tók fyrstur til máls.

Andri sagði lýðræði vera skapandi ferli.

„Ef almenningur fær ekki rödd til að tjá sig á hann það til að öðlast sterka rödd í gegnum einn eldri karlmann, líkt og við sjáum víða í heiminum. Ég tel það mjög brýnt að skýra hlutverk forseta og færa valdið til fólksins, og að í stað 26. greinarinnar verði almenningi veittur formlega réttur til að hafa áhrif með þessum hætti,“ sagði Andri.

„Stjórnarskráin verður að vera þolprófuð, sterk og samhæfanleg við stjórnarskrár nágrannaríkjanna. Þetta er mál sem við eigum að geta klárað og við eigum að geta verið stolt af því að hafa klárað það.“

mbl.is/Styrmir Kári

Andvígur kollvörpun stjórnarskrárinnar

„Ég hef kannski einn manna hér komið að því að breyta stjórnarskrá, það var mitt fyrsta verk í þinginu að taka þátt í að breyta Alþingi í eina deild úr tveimur,“ sagði Davíð Oddsson og taldi upp aðrar þær breytingar sem hann hefði tekið þátt í að gera.

„Þetta voru litlar breytingar enda er stjórnarskrá þess eðlis að hún vill ekki láta breyta sér. Ég var enda andvígur því að kollvarpa stjórnarskránni og skildi aldrei þau rök að fall bankanna krefðist þess að það yrði gert. Ég var ósáttur við það og er ósammála því,“ sagði Davíð.

„Þegar ég var í laganámi var réttur 26. greinar kallað synjunarvald og það var kennt að því fylgdi ábyrgð. Ef þjóðin samþykkti lögin í kjölfar synjunar bæri forseta að segja af sér en hafnaði hún lögunum bæri ríkisstjórninni að segja af sér,“ sagði Davíð og bætti við að síðar hefði þetta verið kallaður málskotsréttur. Það sem honum hefði verið kennt hefði þá augljóslega ekki verið virt af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

mbl.is/Styrmir Kári

Stolt af stjórnarskrárdrögunum

Elísabet Kristín Jökulsdóttir sagðist stolt af stjórnarskrárdrögunum og sagði að allt ætti að gera til að þau taki gildi. „Kannski fyrir utan það að ég vildi hafa það sem skilyrði að karlar og konur skiptust á að gegna embætti forseta.“

Hluti þjóðarinnar geti krafist atkvæðagreiðslu

„Það er þjóðin í landinu og fulltrúar sem hún kýs á þing sem breyta stjórnarskránni,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson.

„Ég er bæði sáttur við stjórnarskrána og vil um leið breyta henni. Ég hef talað fyrir því að í stjórnarskrána komi ákvæði þess efnis að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti krafist atkvæðagreiðslu um ákveðið mál.“

„Forseti á að geta neitað að samþykkja lög gangi þau alfarið gegn sannfæringu hans,“ sagði Guðni og tók sem dæmi þau orð Vigdísar Finnbogadóttur að hún myndi aldrei samþykkja lög um dauðarefsingar. „Það myndi ég heldur aldrei gera.“

mbl.is/Styrmir Kári

Þörf á breytingum

„Ég tel að það sé þörf á breytingum og að rétt sé að gera þær í tveimur áföngum,“ sagði Halla Tómasdóttir.

„Byrjum á að taka þessi stóru mál sem deilt er um. Að því loknu þarf að gera samfélagssáttmálann skiljanlegan. Síðast en ekki síst skiptir máli að fjalla um hlutverk forseta og þings og skilin þar á milli með skýrari hætti.“

Fundarstjóri var dr. Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, en að loknum erindum frambjóðenda leyfði hún spurningar fólks sem komið var saman í salnum.

mbl.is/Styrmir Kári

Þjóðin hafi arð af auðlindum sínum

Þá var spurt hvaða skoðun frambjóðendur hefðu á kvótakerfi í sjávarútvegi.

„Að mínu mati er það þannig að kvótakerfinu verður breytt með lögum á Alþingi en ekki á Bessastöðum. Ég hef áttað mig á þeim göllum sem þarf að sníða af kvótakerfinu en ég gæti ekki gert það einn míns liðs,“ sagði Guðni.

Halla sagðist hafa alla tíð talað fyrir skýrum leikreglum. „Þjóðin á að hafa arð af auðlindum sínum í sjó og í landi.“

Andri Snær sagði málið vera á valdsviði Alþingis. „Auðlindaákvæðið skiptir gríðarlega miklu máli en það tryggir ekki að arðurinn renni til þjóðarinnar. Þjóðin á til dæmis hálendið en það er ekki gefið að arður af auðlindum þar renni til þjóðarinnar. Þetta verður alltaf eitt af okkar flóknari viðfangsefnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert