Sýknaður af smygli á Litla-Hraun

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Karlmaður var í dag sýknaður í Hæstarétti af ákæru fyrir að hafa smyglað inn þremur lyfjatöflum er innihéldu ávana- og fíkniefnið oxazepam á Litla-Hraun.

Maðurinn var sakaður um að hafa smyglað inn töflunum með því að kasta þeim yfir öryggishlið fangelsisins og átti svo fangi að sækja töflurnar. 

Maðurinn viðurkenndi að hafa kastað töflunum yfir girðinguna og að þær hafi verið ætlaðar fanga sem þar sat inni. Hins vegar komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að refsiákvæðið sem vísað var til í kærunni væri ekki efnisákvæði sem geri það refsivert að smygla í fangelsi lyfjum eða henda þeim yfir girðingu umhverfis fangelsi. 

Ákvæðið vísar svo til annarrar reglu í lögunum en sú regla inniheldur heldur enga efnisreglu sem gerir slíka háttsemi bannaða. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms og vísaði í 69. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað.

Þar sem það skorti í þessu máli var maðurinn sýknaður. 

Þá var heldur ekki talið að verknaðarlýsingin í málinu lýsti broti gegn lögum nr. 65 frá 1974 um ávana- og fíkniefni. Vegna þess annmarka á ákærunni var þeim lið málsins því vísað frá í Hæstarétti.

Karlmaðurinn sem tók við lyfjatöflunum, fangi á Litla-Hrauni, var hins vegar sakfelldur í öðru máli, sem dómur féll í í Hæstarétti í dag, fyrir að hafa verið með í fórum sínum lyfin sem hent var yfir girðinguna. Hlaut hann 100 þúsund króna sekt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert