Markmiðið að hræða vísindamenn

Michael E. Mann, loftslagsvísindamaður og prófessor við Pennsylvania State University …
Michael E. Mann, loftslagsvísindamaður og prófessor við Pennsylvania State University í Bandaríkjunum. Hann er einn af helstu fræðimönnum í loftlagsvísindum. mbl.is/Ragnar Axelsson

Loftlagsvísindamaðurinn Michael E. Mann og háskólinn sem hann starfar við, Pennsylvania State University, hafa undanfarin ár þurft að standa straum af hundruðum þúsunda dollara í lögmannskostnað til að verjast stefnum og lögbannskröfum sem koma aðallega frá íhaldssinnuðum hugveitum (e. think tank) og stjórnmálamönnum úr röðum Repúblikanaflokksins. Þetta segir Mann í samtali við mbl.is, en hann er nú staddur á Íslandi vegna fyrirlestraraðar sem hann og Stefan Rahmstorf fluttu í dag í Háskóla Íslands á vegum Earth 101-verkefnisins.

Markmiðið að hræða vísindamenn

Mann segir að margir vísindamenn í Bandaríkjunum sem rannsaki málefni sem séu umdeild og miklir hagsmunir liggi á bak við hafi fengið að kenna á málsóknum og ýmiss konar dómstólaleiðum. Hann tekur þó fram að í sínu tilfelli hafi bæði hann og háskólinn verið styrktir af sérstökum sjóðum vísindamanna til að greiða allan kostnaðinn, en sjóðirnir eru hugsaðir í aðstæðum sem þessum. Upphæðirnar nema hundruðum þúsunda dala, eða tugum milljóna íslenskra króna.

Frétt mbl.is: Öfgaveðurtilfellum mun fjölga

Áhrifin af dómstólabaráttum sem þessum eru fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að niðurstöður slíkra rannsókna séu birtar og til að hræða vísindamenn, segir Mann. „Það er mjög augljóst að það er markmiðið,“ segir hann en bætir við: „Ég tel þó vísindamenn vera að berjast á móti þessu núna og ég tel ekki að kraftar afneitunar séu að vinna. Þeir eru að tapa fjölmiðlabaráttunni þar sem almenningur vill ekki sjá nornaveiðar gegn vísindamönnum vegna rannsókna þeirra.“

Íhaldssinnaðar hugveitur og stjórnmálamenn styrktir af olíugeiranum

Mann segir það helst vera íhaldssinnaðar hugveitur sem séu styrktar af jarðefnaeldsneytisiðnaðinum og stjórnmálamenn, sem hafi lengi staðið með sömu hagsmunum, sem ráðist að vísindamönnum á sviði loftlagsrannsókna.

Mann telur þessar aðferðir munu koma niður á Repúblikanaflokknum í næstu kosningum, en hann segir þá stjórnmálamenn sem helst standi í veg fyrir sjálfstæðum vinnubrögðum fræðimanna á þessu sviði koma þaðan.

Nefnir Mann sérstaklega að það sé sérstök staða í Bandaríkjunum þar sem formaður vísindaráðs Bandaríkjaþings sé annálaður afneitunarsinni loftslagsbreytinga og afneiti þróunarkenningunni. Á sama tíma hafi hann þegið stórar upphæðir frá olíuiðnaðinum á löngum ferli sínum sem þingmaður.

Bráðnun Grænlandsjökuls er meðal þeirra málefna sem gætu skipt Íslendinga …
Bráðnun Grænlandsjökuls er meðal þeirra málefna sem gætu skipt Íslendinga talsverðu máli á komandi árum og áratugum. mynd/NordForsk

Umdeildur formaður vísindanefndar

Þingmaðurinn sem um ræðir er Lamar S. Smith og situr á þingi sem þingmaður fyrir Repúblikanaflokkinn í Texas. Hann hefur verið formaður ráðsins síðan 2013 og á því tímabili hefur hann gefið út fleiri stefnur þar sem vísindamenn, háskólar eða aðrir aðilar í fræðasamfélaginu eru krafðir um upplýsingar úr rannsóknum, rannsóknaaðferðir og jafnvel samskipti vísindamanna á milli, en vísindaráðið hafði gert samtals á 54 ára ferli sínum. Hefur hann hótað þeim sem ekki verða við beiðni hans lögsókn.

Frétt mbl.is: Vísindanefndin sökuð um nornaveiðar

Meðal annars óskaði Smith eftir slíkum rannsóknargögnum frá NOAA, stofnun sem fer með málefni hafsins og andrúmsloftsins í Bandaríkjunum, og að stofnunin myndi skýra út fyrir honum nákvæmlega hvernig rannsóknirnar hefðu farið fram. Þær upplýsingar voru þó allan tímann aðgengilegar almenningi.

Líkir aðferðunum við McCarthy-isma

Mann segist ekki vilja skafa af því þegar hann segi þetta vera nornaveiðar og líkir aðferðum Smith og afneitunarsinna sem komi fram í nafni olíuiðnaðarins við McCarthy-isma á sjötta áratug síðustu aldar. Hann segir aðferðirnar núna þó líklegast verri en áður þar sem um sé að ræða stór alþjóðleg fyrirtæki sem nýti ráðamenn sem verkfæri við að koma skoðunum sínum áleiðis. Þannig hafi fyrrnefndur Smith meðal annars fengið 600 þúsund dali, eða um 80 milljónir króna, á þingferli sínum frá olíuiðnaðinum.

Staðan slæm í angló-saxneskum löndum

Spurður hvernig staðan sé í öðrum löndum en Bandaríkjunum í þessum efnum segir hann að ástandið sé hvað verst þar. Þó sé þöggun í vísindasamfélaginu líka mein í Kanada, þótt þar hafi ástandið batnað og í Ástralíu. Segir hann að í Ástralíu hafi ríkisstjórnin nýlega rekið tugi loftslagssérfræðinga og vísindamanna, meðan fyrrverandi forsætisráðherra Kanada, Stephen Harper, hafi bannað vísindamönnum sem störfuðu fyrir hið opinbera að tala við blaðamenn. Ástandið í Evrópu er að hans sögn talsvert betra, þótt þar komi einnig upp einhver dæmi um lögfræðilegar árásir á vísindamenn.

Stefan Rahmstorf er einnig staddur hér á landi vegna Earth …
Stefan Rahmstorf er einnig staddur hér á landi vegna Earth 101-verkefnisins. Hann og Mann héldu hvor um sig þrjá fyrirlestra í Háskóla Íslands í dag um loftlagsmál. mbl.is/Ragnar Axelsson

Loftlagsvísindamaðurinn Stefan Rahmstorf, sem einnig er staddur hér á landi vegna Earth 101-verkefnisins, tekur undir með Mann, en bætir þó við að ástandið sé allt annað í heimalandi hans, Þýskalandi, en í Bandaríkjunum þar sem Mann búi. Verndin fyrir vísindamenn sé mun betri í Þýskalandi og samstaða þingheims í þessum málum.

Rahmstorf segir að hans upplifun sé að í hinum angló-saxnesku löndum séu árásirnar umfangsmeiri og hafi meiri áhrif á vísindamenn. Það séu Bandaríkin, Kanada, Ástralía, auk Bretlands. Á meginlandi Evrópu sé staðan hins vegar almennt eins og í Þýskalandi.

„Þeir eru að tapa baráttunni

Þrátt fyrir mótbárurnar sem vísindamenn í þessum fræðum hafa fengið undanfarin ár og áratugi, er Mann nokkuð brattur á áframhaldið. „Þeir eru að tapa baráttunni og það sást best með samstöðunni á Parísarráðstefnunni þrátt fyrir alla pressuna frá olíufyrirtækjum,“ segir hann og brosir.

Örlög jarðar gætu oltið á forsetakosningum Bandaríkjanna

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust gætu orðið afdrifaríkar fyrir loftslag jarðarinnar, að mati Mann. Í erindi sínu í Háskóla Íslands í dag benti hann á að meðan að Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, hefði talað um mikilvægi þess að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum væri Donald Trump, frambjóðandi repúblikana, einn mest áberandi afneitari loftslagsbreytinga um þessar stundir. Nú síðast hafi hann sagst ætla að henda Parísarsamkomulaginu í ruslafötuna. „Ég tel mig ekki vera að ýkja þegar ég segi að örlög plánetunnar gætu oltið á niðurstöðum forsetakosninganna í haust. Ég vona sannarlega að landar mínar velji rétt,“ sagði Mann í erindi sínu í Háskóla Íslands í dag.

Frétt mbl.is: Öfgaveðurtilfellum mun fjölga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert