Dúxinn er þrítug móðir

Anna Krist­ín Ólafs­dótt­ir dúxaði.
Anna Krist­ín Ólafs­dótt­ir dúxaði. Ljós­mynd/ Tækni­skól­inn

„Ég bjóst nú ekki við þessu og var í hálfgerðu losti þarna í gær,“ segir Anna Kristín Ólafsdóttir sem í gær dúxaði við Tækniskólann, en hún útskrifaðist með einkunnina 9,85. Anna Kristín er þrítug móðir, og lærði grafíska miðlun við skólann.

Fór óhefðbundna leið í námi

Í samtali við mbl.is segist Anna Kristín hafa farið óhefðbundna leið í námi, en hún útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands fyrir tíu árum. Eftir það lærði hún þjóðfræði við Háskóla Íslands og lauk síðar meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun. „Þar fékk ég að þreifa á þessum forritum og þá kviknaði áhuginn,“ segir hún og bætir við að í kjölfarið hafi hún tekið ákvörðun um að skrá sig í Tækniskólann.

Hún hóf nám þar haustið 2013, þegar hún var ólétt, en dóttir hennar kom í heiminn í febrúar 2014. Hafði hún því verið í fjarnámi á meðan hún var í fæðingarorlofi, en í haust hóf hún staðnám við skólann. Þar sem hún býr á Akranesi keyrði hún á milli alla daga, og þurfti að skipuleggja sig gríðarlega vel.

„Þetta er búinn að vera strangur vetur. Ég þurfti að skipuleggja mig vel því ég gat ekki verið fram á kvöld í skólanum,“ segir hún. Lykillinn að árangrinum segir hún þó að sé áhuginn. „Ég hafði svo rosalega gaman af náminu í Tækniskólanum og ég held að þess vegna hafi mér gengið svona vel. Mér fannst þetta svo skemmtilegt,“ segir hún.

„Held að enginn hafi búist við þessu“

Anna Kristín segist ekki hafa haft hugmynd um meðaleinkunn sína, þar sem hún hafi ekki verið búin að reikna hana út. Það hafi því komið henni í opna skjöldu þegar hún komst að því að hún væri dúx skólans, á athöfninni í gær.

„Ég var búin að banna öllum í fjölskyldunni minni að koma því ég er búin að útskrifast svo oft og vildi ekki að þau þyrftu að sitja í gegnum enn aðra athöfnina,“ segir hún um viðbrögð fjölskyldunnar. „Þau vissu að mér hefði gengið vel og að ég hefði fengið góðar einkunnir, en ég held að enginn hafi búist við þessu“.

Anna Kristín stefnir að því að klára samninginn í grafískri miðlun. Komist hún á samning í haust getur hún fengið sveinspróf næsta vor. Drauminn segir hún þó vera að samtvinna grafísku miðlunina við fyrra nám sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert