Laugarbakki er á miðri leiðinni

Örn Arnarson og Unnur Sigurrún Kristleifsdóttir í salarkynnum hótelsins glæsilega …
Örn Arnarson og Unnur Sigurrún Kristleifsdóttir í salarkynnum hótelsins glæsilega í Húnaþingi vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýtt 56 herbergja hótel að Laugarbakka í Miðfirði í Húnaþingi vestra var opnað fyrir nokkrum dögum og sér nú fyrir endann á framkvæmdum þar sem gömlum heimavistarskóla hefur verið breytt í nútímalegt hótel.

„Við Hildur Ýr Arnarsdóttir konan mín vorum hér árið 1999 þegar hún annaðist rekstur sumarhótels. Staðurinn heillaði strax og tengdist draumi okkar um að hefja eigin hótelrekstur. Við kynntum málið fyrir forsvarsmönnum Húnaþings vestra fyrir nokkrum árum og þegar skólahaldi hér var hætt voru byggingarnar auglýstar til sölu. Þá sendum við inn tilboð sem gengið var að,“ segir Örn Arnarson, einn af eigendum hótelsins.

Nýtt hús innan útveggjanna

Laugarbakki, sem er skammt frá Hvammstanga, er því sem næst á miðri leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. „Staðsetningin er góð og hér eru miklir möguleikar í ferðaþjónustu. Náttúran er mögnuð og nefni ég þar til dæmis Hvítserk, Kolugljúfur, Borgarvirki og selalátrin á Vatnsnesi. Það er því ýmislegt skemmtilegt hægt að gera, en hér hefur klárlega vantað heilsárshótel með nútímaþægindum eins og nú er komið,“ greinir Örn frá.

Að mörgu var að hyggja þegar hafist var handa við framkvæmdir á Laugarbakka síðastliðið haust „Það má segja að innan útveggjanna hafi verið byggt nýtt hús. Runólfur Sigurðsson, arkitekt hjá Alhönnun á Akranesi, kom með teikningar þar sem stofur voru stúkaðar niður og gerðar að stórum herbergjum rétt eins og litlar vistarverurnar sem áður voru heimavist nemenda, meðan hér var starfræktur skóli. Þá útbjuggum við hér rúmgóðan aukasal og erum þá með þrjá sali að meðtöldu íþróttahúsinu. Í þeirri álmu, þar sem kennslustofur voru, verða stærstu herbergin, til dæmis tvær fjörutíu fermetra brúðarsvítur. Þá ætlum við að standsetja íþróttahúsið og breyta í 2 – 300 manna ráðstefnusal. Búningsklefarnir nýtast svo fyrir heitu pottana sem verða hér utandyra,“ útskýrir Örn og nefnir að síðustu matreiðsluna á hótelinu.

Hráefni úr héraði

„Kokkurinn Unnur Sigurrún Kristleifsdóttir og Hildur konan mín unnu saman á hóteli fyrir nokkrum árum og í okkar huga var Unnur eini matreiðslumaðurinn sem kom til greina. Unnur er bæði konditormeistari og kokkur og verður frábær í því að útbúa veitingar úr hráefni úr héraði; svo sem lambakjöt, silung úr vötnunum á Arnarvatnsheiði, kanínukjöt af Vatnsnesinu og rækjur úr vinnslunni á Hvammstanga.“

Allar sviðsmyndir ganga upp

Byggingarnar á Laugarbakka eru alls um 4.000 fermetrar; reistar í þremur áföngum á árunum 1970 til 1990. Þarna var starfræktur grunnskóli fyrir sveitirnar í Vestur-Húnavatnssýslu og fyrr á tíð var þar mikill fjöldi barna. Svo breyttist veruleikinn og í dag er allt skólahaldið komið á Hvammstanga. Því seldi sveitarfélagið byggingarnar og nú er þar komið fyrsta flokks hótel með salarkynnum og herbergjum sem eru rúmgóð, falleg og sólrík.

Framkvæmdum á Laugarbakka hefur alfarið verið sinnt af iðnaðarmönnum í Húnaþingi vestra. Þetta er hópur 20-25 manna sem sinnt hafa verkefninu af krafti enda þurfti því að ljúka nú í sumarbyrjun. „Það segir sig sjálft að svona verkefni kostar talsvert en Landsbankinn hefur staðið þétt við bakið á okkur með fjármögnunina,“ segir Örn. Bætir því svo við að búið sé að máta áætlanir um reksturinn við ýmsar sviðsmyndir sem allar ganga upp – og bókunarstaðan fyrir sumarið sé góð.

Hótelið er á fallegum stað þaðan sem víðsýnt er yfir …
Hótelið er á fallegum stað þaðan sem víðsýnt er yfir Miðfjörð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert