Viðskiptasendinefnd til Nígeríu

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stendur að Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fari til Nígeríu með viðskiptasendinefnd til þess að ræða frekar þau vandamál sem uppi eru í viðskiptum landanna. Einkum með afurðir þurrfiskútflytjenda. Þetta kom fram í máli ráðherrans á Alþingi í dag í svari við munnlegri fyrirspurn frá Valgerði Gunnarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem gerði erfiðleika í viðskiptum landanna að umtalsefni og hagsmuni íslenskra fyrirtækja.

„Þetta er í rauninni mjög alvarlegt mál vegna þess að undir liggja 450–500 störf. Yfir 20 fyrirtæki á Íslandi hafa þessa starfsemi með höndum. Þessi starfsemi skapar tekjur inn í þjóðarbúið upp á 15–20 milljarða. Þetta eru því mikilvæg fyrirtæki, bæði fyrir Íslendinga og eins fyrir Nígeríubúa vegna þess að þessar afurðir skila inn til þeirra gríðarlega verðmætum próteingjöfum í fæðu fyrir nígeríska þjóð,“ sagði Valgerður í fyrirspurn sinni.

Lilja sagði stefnt að því að slík sendinefnd færi til Nígeríu síðar í sumar eða um leið og aðstæður leyfðu. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafi nýlega farið til Nígeríu til að undirbúa slíka heimsókn. Málið væri erfitt en mætti rekja til snarps samdráttar í gjaldeyristekjum Nígeríu. Fyrir vikið hefði seðlabanki landsins sett reglur á síðasta ári sem takmarki gjaldeyrisyfirfærslur vegna innflutnings til landsins, meðal annars á sjávarafurðum.

„Voru reglurnar settar í ljósi þess gífurlega samdráttar sem orðið hefur í gjaldeyristekjum þjóðarinnar vegna lækkandi olíuverðs, en langstærstur hluti af útflutningsverðmætum Nígeríu kemur frá olíuviðskiptum,“ sagði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert