Tekur einn dag í einu

Katrín Tanja er nú búsett í Boston í Bandaríkjunum.
Katrín Tanja er nú búsett í Boston í Bandaríkjunum. mbl.is

„Ein besta æfingaraðstaða í heimi er í Crossfit Reykjavík og þar var ég að æfa með Annie Mist en mér fannst að þar sem ég ætlaði að gefa allt í þetta þyrfti ég að vera með þjálfara á hverjum einasta degi til að horfa á mig og gefa mér live feedback,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir, heimsmeistari í crossfit.

Katrín Tanja fluttist til Boston í janúar til þess að geta æft með þjálfara sínum og til að setja alla einbeitingu í crossfit. „Ég get æft vel sjálf en það er herslumunur að vera með þjálfara á svæðinu og mér finnst ég alltaf bæta mig svo ótrúlega á æfingum með honum, hver dagur er alveg 100%.“

Líf Katrínar Tönju hefur tekið miklum breytingum eftir sigur á …
Líf Katrínar Tönju hefur tekið miklum breytingum eftir sigur á heimsleikunum í fyrra. mbl.is/Berglind Sigmundsdóttir

Saknar vina og fjölskyldu á Íslandi 

Hún segir umhverfið í Boston afar gott og mikinn fókus vera á crossfitinu en auðvitað sakni hún þó vina og fjölskyldu heima á Íslandi. „Ég æfi í sex til sjö klukkustundir á dag og er búin á æfingu um klukkan fjögur. Þá hef ég mikinn tíma til að lesa íþróttasálfræði, fara í nudd og til kírópraktors. Síðan er ég með fyrirtæki sem eldar ofan í mig mat þannig að ég borða akkúrat nóg, ekki of mikið.“

Katrín Tanja er ánægð með þá ákvörðun að hafa flutt út til Bandaríkjanna en síðastliðna helgi tryggði hún sér sæti á heimsleikunum í crossfit, sem haldnir eru í Kaliforníu í júli, með sigri á svæðisleikunum í Bandaríkjunum. „Mér fannst mjög erfitt að fá ekki að keppa á Evrópuleikunum og skrýtið að hafa ekki íslensku stelpurnar með mér. Evrópsku áhorfendurnir eru líka þekktir fyrir góða stemningu í salnum en hún var ekki alveg jafn klikkuð hér í Bandaríkjunum. En þetta var samt sem áður alveg ótrúlega skemmtilegt.“

Katrín Tanja með 85 kg í snörun.
Katrín Tanja með 85 kg í snörun. Ljósmynd/Haraldur Leví Jónsson

Snörun, handstöðulabb og hlaup í uppáhaldi 

Nú eru um sjö vikur í heimsleikana í crossfit og undirbúningur í fullum gangi hjá Katrínu Tönju. „Það er of seint að ætla að grípa í einhverja tauma núna. Ég er rosalega ánægð með hvernig ég hef tæklað æfingarnar hingað til og núna snýst þetta bara um að halda fókus og ná forminu sem bestu.“

Uppáhaldsæfingar Katrínar Tönju eru snörun, handstöðulabb og hlaup en í rauninni þykja henni allar æfingar skemmtilegar. „Að einhverju leyti finnst mér allt skemmtilegt, bæði út af því að ég er góð í því en líka því að mér þykja æfingarnar erfiðar og langar að bæta mig.“

Líf Katrínar Tönju hefur tekið miklum breytingum eftir sigur á heimsleikunum í fyrra. Aðspurð um framhaldið segir Katrín Tanja að sér þyki líklegt að hún muni koma til Íslands eftir heimsleikana og fara svo aftur út í janúar á næsta ári til þess að æfa. „Ég tek bara einn dag í einu en þetta er búið að vera rosalega fókuserað núna og ég er í góðu formi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert