Dagur: Niðurstaðan fullnaðarsigur

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er mjög ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar um að ríkinu sé skylt að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli. Hann segist hafa búist við að niðurstaðan yrði á þennan veg.

„Mér finnst hún skýr og þetta er fullnaðarsigur í málinu. Meginniðurstaðan er að þessir samningar halda og brautinni verður lokað,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.

Íslenska ríkið þarf að loka neyðarbraut­inni á Reykja­vík­ur­flug­velli inn­an 16 vikna. Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is skömmu eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir  að ráðuneytið myndi virða hana.

Frétt mbl.is: Ráðuneytið virðir niðurstöðuna

Reykja­vík­ur­borg hafði höfðað mál á hend­ur inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu vegna ákvörðunar ráðherra um að neita að loka NA-SV-braut­inni, en hún er bet­ur þekkt sem neyðarbraut vall­ar­ins. Héraðsdóm­ur hafði kom­ist að þeirri niður­stöðu að Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur, fyrr­ver­andi inn­an­rík­is­ráðherra, hafi verið heim­ilt að gera sam­komu­lag við borg­ina árið 2013 og láta af hendi landsvæði sem væri í eigu rík­is­ins og braut­in er á.

Þetta þýðir í raun að Vals­menn hf., sem hafa fengið fram­kvæmda­leyfi og hafið fram­kvæmd­ir á Hlíðar­enda­svæðinu, geta haldið áfram með fram­kvæmd­ir sín­ar án þess að eiga á hættu að upp­bygg­ing þar skar­ist á við aðflug að neyðarbraut­inni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert