Andlát: Kristján Gunnar Bergþórsson

Kristján Gunnar Bergþórsson
Kristján Gunnar Bergþórsson

Kristján Gunnar Bergþórsson, fyrrverandi verkstjóri í framleiðsludeild Morgunblaðsins, varð bráðkvaddur á heimili sínu aðfaranótt 10. júní, 69 ára að aldri.

Kristján var fæddur 31. mars 1947 í Hafnarfirði, sonur Bergþórs Kristjáns Mýrmann Albertssonar bifreiðastjóra og konu hans Maríu Jonnýjar Jakobsdóttur. Hann ólst upp í Hafnarfirði og gekk þar í Lækjarskóla og Flensborg. Að loknu gagnfræðaprófi fór Kristján til náms í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk sveinsprófi í setningu árið 1967. Hann hlaut meistararéttindi í iðninni árið 1974.

Kristján var lærlingur í Prentsmiðju Hafnarfjarðar og starfaði þar til ársins 1972. Hann hóf störf hjá Prentsmiðju Morgunblaðsins árið 1972 og var verkstjóri í framleiðsludeild blaðsins frá árinu 1974 og allt þar til hann lét af föstu starfi á Morgunblaðinu haustið 2011.

Kristján var lykilmaður við innleiðingu og rekstur framleiðslu- og ritstjórnarkerfa Morgunblaðsins. Hann veitti sérfræðiaðstoð þegar upp komu vandamál við rekstur framleiðslu- og ritstjórnarkerfanna allt til hinsta dags.

Kristján gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum um ævina, m.a. fyrir Félag íslenska prentiðnaðarins (FÍP) sem síðar gekk inn í Samtök iðnaðarins, og fyrir Hið íslenska prentarafélag (HÍP) sem síðar varð Félag bókagerðarmanna, Grafía stéttarfélag. Hann var um tíma í stjórn Prenttæknistofnunar. Þá var Kristján í stjórn Miðdalsfélagsins, félags sumarhúsaeigenda í Miðdal, og formaður þess 1992 til 1995. Hann var einnig félagi í Frímúrarareglunni.

Kristján kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Sóleyju Örnólfsdóttur 28. febrúar 1970. Þau eignuðust fjögur börn; Birnu, Ernu, Albert Þór og Stefán Örn. Barnabörnin eru orðin ellefu talsins.

Að leiðarlokum þakkar Morgunblaðið Kristjáni fyrir störf hans fyrir blaðið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert