Um mannleg mistök að ræða

Aðspurð hver viðbrögð RÚV við kröfu Umhverfisstofunnar voru skrifar Birna …
Aðspurð hver viðbrögð RÚV við kröfu Umhverfisstofunnar voru skrifar Birna að þau hafi verið að skoða málið samstundis en það er nú í ferli innanhúss. Þátturinn hefur þegar verið fjarlægður þar sem hann var aðgengilegur á meðan málið er til skoðunar. mbl.is/Eva Björk

Stjórnendur RÚV ganga út frá því að um mannleg mistök hafi verið að ræða þegar fjallað var um eitur í þættinum „Gurrý í garðinum“ sem óheimilt er að dreifa. Þykir stjórnendum RÚV þessi mistök miður og verður farið yfir málið sérstaklega með aðstandendum og dagskrágerðarmönnum þáttarins. Þá verður tryggt að mistök í líkingu við þessi komi ekki fyrir aftur. Þetta kemur fram í skriflegu svari Birnu Óskar Hansdóttur, framleiðslustjóra RÚV, við spurningum mbl.is.

Umhverfisstofnun greindi frá því á vef sínum í dag að í þættinum í síðustu viku hafi verið fjallað um plöntu­vernd og m.a. kynnt­ar til sög­unn­ar tvær vör­ur til þess nota gegn skaðvöld­um í görðum. „Ann­ars veg­ar var um að ræða vör­una Perma­sect 25 EC sem óheim­ilt er að selja og dreifa hér á landi og hins veg­ar vöru und­ir heit­inu Blautsápa, sem ekki er leyfi­legt að markaðssetja sem plöntu­vernd­ar­vöru hér á landi,“ seg­ir á vefsíðunni.

„Kynn­ing á vör­um, með þeim hætti sem gert var í þætt­in­um, teljist brot á ákvæðum reglu­gerðar um plöntu­vernd­ar­vör­ur og hef­ur Um­hverf­is­stofn­un því kraf­ist þess að þætt­in­um verði breytt þannig að hann stand­ist of­an­greind­ar regl­ur, eða hann verði tek­inn úr sýn­ingu,“ segir í fyrri frétt mbl.is um málið. Þátturinn var tekinn úr sýningu fyrr í dag. 

Fyrri frétt mbl.is: Vilja Gurrý af skjánum

Fyrri frétt mbl.is: Gurrý fjarlægð af vef RÚV

Talaði almennt gegn notkun eiturefna

Í svari Birnu er tekið fram að önnur þessara vara sem var til umfjöllunar (Permasect 25 EC) er enn leyfileg til notkunar til 31. desember 2016, hjá þeim sem keyptu vöruna fyrir 1. janúar 2016, en það kom jafnframt fram í bréfi Umhverfisstofnunar. „Það á sannarlega við í þessu tilviki þar sem umræddur þáttur var í upptöku sumarið 2015,“ segir í svari Birnu.

Bætir hún við að í umræddri umfjöllun hafi umsjónamaður þáttarins talað almennt gegn notkun eiturefna og inntakið í umfjölluninni var einmitt að vara fólk við að nota eiturefni í görðum.  „Ítrekað var slík viðvörun tekin skýrt fram og mælt með því að fólk notaði frekar lífræn efni við garðyrkju – vildi það á annað borð grípa inn í ef brýnt þætti,“ segir í svari Birnu. 

Aðspurð hver viðbrögð RÚV við kröfu Umhverfisstofunnar voru skrifar Birna að þau hafi verið að skoða málið samstundis en það er nú í ferli innanhúss. Þátturinn hefur þegar verið fjarlægður þar sem hann var aðgengilegur á meðan málið er til skoðunar. Þá mun framleiðandi og umsjónamaður þáttarins gera þær breytingar sem þarf til að tryggja að umrædd umfjöllun falli að lögum og reglum.

RÚV hefur þegar staðfest móttöku erindi Umhverfisstofnunar og verður því svaraði formlega og útlistað hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu RÚV til að lagfæra það sem miður fór.

Aldrei um vörukynningu að ræða

Í svari Birnu við spurningu blaðamanns um viðhorf RÚV gagnvart því að flokka umfjöllunina sem vörukynningu og hvort stofnunin telji að umfjöllun um plöntuvernd geti flokkast sem vörukynning bendir hún á að athugasemdir Umhverfisverndarstofnunar hafi ekki snúið að því að um hafi verið að ræða vörukynningu, heldur að þarna hafi verið um að ræða umfjöllun um vöru sem er ekki með leyfi til að vera á markaði. „Þeir taka það einmitt fram að heppilegra hefði verið að vera með til umfjöllunar vörur sem hafa leyfi til að vera á markaði,“ segir í svari Birnu.

„Almennt má þó segja að í dagskrárgerð sem þessari er aldrei um vörukynningu að ræða.  Dagskrárgerðin miðast við umfjöllun um efni sem krefst sýnikennslu um háttalag og aðferðafræði við garðyrkju.  Það er óumflýjanlegt í slíkri umfjöllun að nota einhverjar vörur í því samhengi.  Hvorki í þessu tilfelli né öðrum í dagskrárgerð RÚV er um að ræða ábata vegna kynningar eða greiðslur frá fyrirtækjum vegna kynningar á tilteknum vörum. Hér er sérfræðingur að fjalla um sitt sérsvið og við treystum henni til að greina frá og leiðbeina í takt við það.“

Umhverfisstofnun er ekki sátt við umfjöllun Gurrýar um eiturefni.
Umhverfisstofnun er ekki sátt við umfjöllun Gurrýar um eiturefni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert