Erla hugsaði strax til Stefáns

Erla Bolladóttir, ein þeirra sem hlutu dóm í Guðmundar- og …
Erla Bolladóttir, ein þeirra sem hlutu dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Rósa Braga

„Fyrst brá mér bara, ég hélt fyrst að það væri komið í ljós hver hefði myrt hann. Ég snerist í hringi og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Svo þegar ég fór að átta mig betur á fréttunum datt mér Stefán strax í hug. Þá vaknaði sú spurning hjá mér; gæti hann hafa verið viðriðinn hvarf hans? Ég hafði aldrei hugsað út í það,“ segir Erla Bolladóttir, ein þeirra sem hlaut dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Morgunblaðið greindi frá því á miðvikudag að tveir karlmenn hefðu verið handteknir og færðir til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn setts saksóknara á morði Guðmundar Einarssonar sem hvarf sporlaust árið 1974.

Í umfjöllun blaðsins hefur komið fram að rannsóknin beindist aðallega að því hvort mennirnir hefðu komið að flutningi á líki Guðmundar. Í gærkvöldi kom fram að nöfn mannanna eru Stefán Almarsson og Þórður Jóhann Eyþórsson.

Þau sem viti hafi enn ekki stigið fram

Erla segist ekki vera bjartsýn á að yfirheyrslur yfir Stefáni og Þórði muni leiða til þess að málin tvö verði upplýst, tæplega fjörutíu árum eftir hvarf Guðmundar og Geirfinns.

„Það er eitthvað sem ég hef látið mig dreyma um í alla þessa áratugi að einhver hefði, að einhver af því fólki í þessu samfélagi sem veit hvað liggur þarna að baki, upplifi allt í einu augnablik samvisku og geti ekki lengur horft upp á þetta. Því miður hefur það ekki gerst enn þá, það fólk er bara enn þá samviskulaust. Það er fólk á lífi hér í samfélaginu og ber sig bara ágætlega sem veit eitt og annað,“ segir hún.

„Eftir því sem fleiri fréttir berast finnst mér línurnar vera að skýrast. Ég sé ekkert í þessum fréttum sem rennir stoðum undir það að Stefán hafi átt einhverja aðild að hvarfi hans. Hins vegar er það staðfest enn og aftur að hann sagði lögreglunni einhverja sögu til að hefna sín á Kristjáni Viðari,“ bætir hún við. Kristján Viðar Viðarsson hlaut 16 ára dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Stefán hafi ekki sagt allan sannleikann

„Það sem Stefán segir lögreglunni, rétt um mánuði áður en við erum handtekin, það er saga sem ég skrifa undir í smáatriðum sem vitni skömmu síðar þegar ég veit ekki neitt hvað varð um þennan mann. Það nákvæmlega sama gerist í Geirfinnsmálinu. Þar kemur einhver saga, örlög Geirfinns, og þremur mánuðum eftir að sú saga kemur erum við í gæsluvarðhaldi,“ segir Erla.

Erla skrifaði undir vitnisburð þess efnis að Kristján Viðar, Sævar Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson hefðu verið á heimili hennar og Sævars. Þar hefðu þrímenningarnir flutt eitthvað þungt í laki sem hún sagðist hafa talið að væri mannslíkami.

Erla vill að Stefán verði spurður um tilefni þess að lögregla ákvað að yfirheyra Erlu og fleiri ungmenni um hvarf mannanna tveggja á sínum tíma. Hún telur að hann hafi ekki enn sagt sannleikann en telur að Stefán hafi átt samskipti við lögreglu sem tengist handtökum þeirra skömmu síðar. „Þessi litla saga Stefáns varð upphafið að þessari örlagaríku rannsókn á okkur,“ segir Erla.

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert