Erill hjá lögreglu á Bíladögum

Frá Bíladögum á Akureyri.
Frá Bíladögum á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Akureyri vegna Bíladaga á Akureyri sem fóru fram um helgina. Hátíðin var sett á miðvikudag og lauk á laugardagskvöld. 

Upp komu fimm fíkniefnamál, tvö tilfelli þar sem ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur.

Að sögn Barkar Árnasonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri, þurfti lögregla oft að hafa afskipti af ökumönnum sem óku óvarlega eða spóluðu innanbæjar. „Það var mikið um slík brot sem voru kærð,“ segir Börkur.

Frétt mbl.is: Héldu vöku fyrir íbúum með spóli

Hann segir hávaða frá spóli hafa heyrst upp á stöð alls staðar frá á öllum tímum sólarhrings. „Það er mikið um að menn séu að leika sér hérna í bænum spólandi,“ segir Börkur en lögregla hafði einnig afskipti af ökumönnum á bifreiðum með filmaðar rúður eða breyttan ljósabúnað.

„Það voru margir með litaðar rúður, bæði fremri hliðarrúðurnar og í framrúðu þannig það var ógerlegt að sjá inn í bílana,“ segir Börkur en lögregla hafði afskipti af 10–15 ökumönnum með filmaðar rúður.

Hann segir að upp til hópa hafi ökumenn bifreiðanna verið kurteisir krakkar sem vissu upp á sig sökina þegar lögregla hafði afskipti af þeim. „Það kom á óvart hvað þeir voru kurteisir og almennilegir,“ segir Börkur sem segir hátíðina hafa almennt séð hafa gengið mjög vel fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert