Nær allar ferðir WOW á eftir áætlun

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Isavia

Sextán af sautján ferðum flugfélagsins WOW air frá Keflavík í gær, sunnudaginn 19. júní, voru á eftir áætlun. Lengst þurftu farþegar að bíða í fjórar klukkustundir og tuttugu mínútur eftir að vél þeirra færi í loftið.

Seinkanirnar, sem voru að meðaltali um 153 mínútur, má að stórum hluta rekja til óhapps sem varð síðastliðinn fimmtudag þegar einni af vélum flugfélagsins var ekið á mastur á vellinum. Skemmdir urðu á öðrum vængnum við áreksturinn og þurfti að aflýsa fluginu sem var til San Francisco í Bandaríkjunum.

Flugfélagið Icelandair fór fimmtíu og eina ferð frá vellinum í gær en tuttugu og átta þeirra fóru of seint frá vellinum. Voru vélar að meðaltali um hálftíma á eftir áætlun og þurftu farþegar lengst að bíða í eina klukkustund og fimmtíu mínútur.  

Vonast til að vinda ofan af seinkunum í nótt

Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi WOW air, segir í skriflegu svari til mbl.is að óhappið hafi orðið síðdegis fimmtudaginn 16. júní.

„Vélin sem um ræðir tekur 350 manns í sæti og var með fulla dagskrá næstu daga. Fá flugfélög geta leyft sér að vera með svo stórar vélar „til vara“ á jörðinni og því þurfti að leigja flugvél fyrir 17. júní,“ segir í svari hennar.

Ekki tókst að fá aðra vél nógu fljótt til að forða seinkunum að morgni laugardagsins 18. júní og því urðu aftur vandræði í gær og í dag. Vonast er til að hægt verði að vinda ofan af þessu í nótt.

„Nú er unnið hörðum höndum að því að laga það sem úrskeiðis hefur farið. Nú er komið sumar, flestar vélar fullar, flestallir flugvellir fullnýttir og flugumferðin í Evrópu mjög mikil,“ segir í svari Svanhvítar.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingarfulltrúi WOW.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingarfulltrúi WOW. Árni Sæberg

Forföllin höfðu nokkur áhrif

Ekki tókst að fullmanna vaktir flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli í gær vegna forfalla. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við mbl.is í hádeginu í gær að enginn hefði fengist til að vinna yfirvinnu.

Til­kynnt var um tak­mark­an­ir á flug­um­ferð um Kefla­vík­ur­flug­völl frá klukk­an 09:00 til 09:30, 11:30 til 12:00 og frá 14:00 til 14:30 í dag. Gef­in voru út skila­boð til flug­manna um þetta þar sem ekki tókst að manna Kefla­vík­urt­urn. 

Frétt mbl.is: Flugumferðarstjórar boða forföll

Að hversu miklu leyti höfðu aðgerðir flugumferðarstjóra áhrif á leiðakerfi ykkar í gær?

„Flugvélar WOW air, sem voru tilbúnar til brottfarar rétt um kl. 9 að morgni til Parísar, Amsterdam og London, komust ekki af stað fyrr en 45 mínútum seinna vegna aðgerða flugumferðarstjóra,“ segir í skriflegu svari Svanhvítar til mbl.is.

„Ekki voru allar þessar seinkanir okkar flugumferðarstjórum að kenna en þegar Keflavíkurflugvöllur er eins fullnýttur og raun er og sumarumferð á öllum flugvöllum í Evrópu þá er hver mínúta í seinkun mjög erfið og getur reynst erfitt að vinna upp allar seinkanir.

WOW air hefur ákveðna komutíma á erlendum flugvöllum og getum við misst þá ef um seinkanir er að ræða og þurfa að bíða eftir næsta mögulega komutíma.“

Margvíslegar ástæður fyrir seinkunum

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að seinkanir gærdagsins hjá flugfélaginu hafi verið margvíslegar. Í seinni hluta maí og fyrri hluta júní ár hvert sé verið að stækka leiðarkerfið mikið og það hafi leitt til seinkana.

„Á sama tíma núna voru flugumferðarstjórar með sínar aðgerðir og sömuleiðis var Keflavíkurflugvöllur að gera breytingar og endurbætur á farangursflokkunarkerfinu,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

„Svo er það þannig með tengiflugið okkar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, einkum eins eða tveggja fluga, að það getur valdið því að brottfarir fleiri fluga tefjast vegna þess að það vantar flugvélar og farþega. Við erum vonandi að komast út úr þessu tímabili sem hefur verið viðvarandi að undanförnu.“

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Styrmir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert