Leiðbeinandinn ákærður fyrir manndráp

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.

Leiðbeinandi Huldu Bjarkar Þóroddsdóttur, sem lést í svifvængjaflugi skammt frá borginni Zürich í Sviss fyrir þremur árum, hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Réttað verður í málinu í St. Gallen í næstu viku.

Hulda Björk var ásamt eiginmanni sínum, Jared Evan Bibler, og hópi annarra á skipulagðri æfingu í svifvængjaflugi um miðjan júlímánuð 2013. Í lokaæfingu undir stjórn leiðbeinanda lenti Hulda í aðstæðum sem hún réð ekki við og varafallhlíf náði ekki að draga nægilega úr falli. Var hún látin þegar að var komið.

Greint er frá málinu á vef svissneska fjölmiðilsins SonntagsZeitung í dag.

Hulda Björk Þóroddsdóttir.
Hulda Björk Þóroddsdóttir.

Saksóknari málsins sakar leiðbeinandann meðal annars um að hafa ekki undirbúið æfinguna, sem þótti afar áhættusöm, nægilega vel, látið Huldu fljúga á krefjandi svifvængjum og gefið beinlínis rangar leiðbeiningar.

Í frétt svissneska fjölmiðilsins er því lýst hvernig Bibler horfði á eiginkonu sína hrapa til jarðar á um sextíu til sjötíu kílómetra hraða.

Tveir sérfræðingar rannsökuðu slysið, en þeir komust að þeirri niðurstöðu að leiðbeinandinn hafi gerst sekur um alvarleg mistök og kæruleysi á æfingunni. Einnig var leiðbeinandinn aðeins með breskt skírteini, sem ekki er viðurkennt í Sviss.

Leiðbeinandinn heldur hins vegar fram sakleysi sínu. „Við erum sannfærðir um að ásakanirnar á hendur honum eru tilhæfulausar,“ segir Hansjürg Rhyner, lögmaður hans.

Hulda Björk og eiginmaður hennar stöfuðu bæði hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu Deloitte í Sviss.

Frétt mbl.is: Lést í svifvængjaslysi í Sviss

Uppfært kl. 12.12 25. júní 2016

Í fréttinni kemur fram að leiðbeinandinn hafi aðeins verið með breskt leyfisskírteini sem ekki sé viðurkennt í Sviss. Hið rétta er að hann hafði öll tilskilin leyfi en Hulda Björk hafði aftur á móti ekki svissneskt leyfi. Var hún að afla sér leyfisins í flugskólanum þegar hún lést. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert