Gaf hárið sitt til þeirra sem vantar

Fermingardagurinn. Karen lét greiða hárið fallega í síðasta sinn.
Fermingardagurinn. Karen lét greiða hárið fallega í síðasta sinn. Ljósmynd/Infantia Ljósmyndir

Karen Ketilbjarnardóttir safnaði hári í tvö og hálft ár fyrir ferminguna sína, en strax að henni lokinni lét hún klippa það og gaf hárið til bandarískra samtaka, Locks of Love, þau safna hári til að nota í hárkollugerð fyrir börn og ungt fólk sem af einhverjum ástæðum hefur misst hárið, vegna lyfjameðferða eða sjúkdóma.

Ég vildi ekki henda öllu þessu hári, það var orðið svo sítt og mikið, svo ég ákvað að gefa það. Ég hafði séð á netinu að það væri hægt að gefa hárið sitt til hárkollugerðar fyrir krakka sem missa hárið vegna veikinda, krabbameinsmeðferðar eða af öðrum ástæðum. Ég sé alls ekkert eftir hárinu mínu, ég var orðin þreytt á því að hafa svona sítt hár. Það var léttir að losna við það, en vissulega voru þetta mikil viðbrigði. Mér fannst þetta samt ekkert mál, ég held að fjölskyldan mín hafi fengið meira sjokk en ég þegar þau sáu mig eftir klippinguna,“ segir Karen Ketilbjarnardóttir og hlær, en hún lét klippa síða hárið sem hún hafi safnað fyrir ferminguna sína, til að gefa það til góðra verka, láta það öðlast nýtt líf.

30 sentimetrar og 90 grömm

„Ég vildi láta klippa mig strax daginn eftir ferminguna mína, en það var svo mikið að gera á hárgreiðslustofunni Silfur hérna í Grundarfirði að ég fékk ekki tíma fyrr en rúmri viku síðar. Hárið var fléttað áður en það var klippt, af því það eru fyrirmæli um að það sé sent í fléttum eða tagli til samtakanna sem taka á móti því, Locks of Love. Hárið þarf að vera að lágmarki 26,5 sentimetrar að lengd, en mitt hár var ágætlega yfir því, það var 30 sentimetrar og 90 grömm að þyngd. Auðvitað tók langan tíma að safna þessu síða hári, ég var í tvö og hálft ár að safna. Ég er líka ánægð með að hárið mitt er mjög þykkt, þá er kannski hægt að gera meira úr því, en ég veit samt ekki hvort það verði nýtt til að gera eina hárkollu eða fleiri.“

Ljósmyndaáhugi

Karen segir samtökin sem safni hárinu, Locks of Love, vera í Bandaríkjunum og þangað sendir hún hárið.

„Það kemur fram á vefsíðunni að hárkollurnar sem eru gerðar úr raunverulegu hári eru langvinsælastar, enda eru þær eðlilegri en þær sem eru gerðar úr gervihári.“

Þegar Karen er spurð að því hvernig tilhugsun það sé að einhver úti í heimi sé með hárið hennar á höfðinu, segir hún það vissulega svolítið skrýtið, en fyrst og fremst finnist henni gaman að geta gefið hárið til þeirra sem hafa not fyrir það.

„Það er góð tilfinning að geta hjálpað krökkum sem hafa misst allt hárið, að þeir geti fengið eðlilegt hár. Ég mæli með að krakkar sem eru að láta klippa af sér sítt hár, geri þetta, það er betra en að henda hárinu,“ segir Karen sem hefur nóg að gera í sumar, hún starfar í unglingavinnunni í sínum heimabæ, í Grundarfirði, og hún ætlar líka að passa börn. Hún á líka von á því að fara í nokkrar útilegur, bæði með fjölskyldunni og með skátunum. Karen hefur mikinn áhuga á ljósmyndun og stefnir að því að verða ljósmyndari í framtíðinni, hún hefur myndavélina með sér hvert sem hún ferðast.

Býr yfir samhygð í verki

„Þetta er algerlega hennar einkaframtak, ég kom ekki nálgæt þessu. Hún ákvað fyrir löngu að safna síðu hári fyrir ferminguna sína og láta síðan klippa það og gefa til þessara samtaka,“ segir Ásthildur Erlingsdóttir, móðir Karenar, sem er að vonum stolt með framtak dótturinnar.

„Karen á það til að plana hlutina fyrir fram og ef hún ákveður eitthvað fram í tímann þá stendur hún við það. Þetta er gott dæmi um það. En við vorum ekkert endilega viss um að hún myndi framkvæma þetta þegar að því kæmi, en hún gerði það og við erum ánægð með hana. Hún er mikill pælari og veltir hlutum lengi fyrir sér. Hún býr yfir mikilli samhygð og finnur til með fólki. Hún er hugljúf í verki, ekki aðeins í orði.“

Frægir gefa líka hárið sitt

Locks of Love eru samtök sem framleiða hágæða hárkollur gerðar úr mannshári fyrir börn yngri en 21 árs í Bandaríkjunum og Kanada sem eru í fjárhagslega illa stæðum fjölskyldum og hafa misst hárið af einhverjum ástæðum, oftast vegna langrar lyfjameðferðar eða sjúkdóma. Fólk alls staðar að úr heiminum getur gefið hár til samtakanna.

Á blogginu á síðunni kemur m.a. fram að fræga fólkið er líka duglegt við að gefa hárið til samtakanna. Nýlega gaf Gio Gonzalez, bandarísk hafnaboltakempa, síðu krulluðu lokkana sína glaður til Locks of Love. Sama gerði Gina Rodriguez, ung bandarísk leikkona sem sumir kannast við úr þáttaröðunum Jane the Virgin.

Á síðunni deila einnig margir sem misst hafa hárið reynslu sinni af því og hvað það sé frábært að hafa fengið hárkollu sem gerð er úr mannshári.

Nánar á vefsíðu samtakanna: www.locksoflove.org

Karen fyrir klippinguna.
Karen fyrir klippinguna.
Karen eftir klippinguna.
Karen eftir klippinguna.
Flétturnar góðu sem Karen sendi út til Bandaríkjanna.
Flétturnar góðu sem Karen sendi út til Bandaríkjanna.
Miðnætursól. Mynd sem Karen tók af systur sinni Lísbet Rós …
Miðnætursól. Mynd sem Karen tók af systur sinni Lísbet Rós í Varmahlíð.
Í essinu sínu. Karen kann vel við sig í útilegum …
Í essinu sínu. Karen kann vel við sig í útilegum með myndavélina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert