Stóð alltaf til að styrkja Ævar

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður, fær styrk vegna árlegs lestrarátaks síns líkt og raunin var í fyrra. Þetta segir Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Alltaf hafi staðið til að hann fengi styrk en vegna misskilnings hefði hann fengið staðlað svar úr ráðuneytinu þar sem umsókn hans var hafnað.

Eins og mbl.is fjallaði um í dag greindi Ævar frá því á Facebook að styrkumsókn hans hefði verið hafnað af menntamálaráðuneytinu og birti hann svarbréfið frá ráðuneytinu.

Sigríður segir að Ævari hafi verið bent á að sækja um styrkinn eftir réttum leiðum hjá Menntamálastofnun, sem hefur umsjón með læsisátakinu, og hjá Þróunarsjóði námsgagna. Illugi er að sögn hennar mjög hrifinn af lestrarátaki Ævars og fullur vilji er hjá ráðherranum að styrkja átakið með sama hætti og í fyrra en þá fékk það 100 þúsund króna styrk.

Frétt mbl.is: Ráðuneytið vildi ekki styrkja Ævar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert