Hóflega bjartsýnn fyrir fundinn í dag

Flugumferðarstjórar við eftirlitsstörf.
Flugumferðarstjórar við eftirlitsstörf. mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég er hóflega bjartsýnn fyrir fundinn í dag. Það á eftir að koma í ljós þegar við mætum hvort það sé eitthvað í pípunum og hvort það sé eitthvað hægt að lenda þessu,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra í samtali við mbl.is.

Fundað verður í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Isavia klukkan 14:00 í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. Samkvæmt lögum sem Alþingi setti á deiluna fyrr í þessum mánuði fer kjaradeilan í gerðardóm ef ekki næst að semja í dag.

„Gerðardómur verður væntanlega skipaður í dag. Við getum þó í rauninni haldið áfram að reyna að semja og ef við verðum komin með kjarasamning áður en gerðardómur skilar af sér þá gildir hann,“ segir Sigurjón. Gerðardómur hefur frest til 18. júlí til að skila niðurstöðu sinni.

Sigurjón gerir ráð fyrir að funda eitthvað fram eftir degi í dag. „Menn eru með mismunandi hugmyndir og maður þarf að sjá hvernig þetta þróast. Ég útiloka ekki neitt, það getur verið að við endum með samning fljótlega en ef ekki þá er það bara svoleiðis.“

Félag íslenskra flugumferðarstjóra mun una niðurstöðu gerðardóms ef ekki nást samningar fyrir uppkvaðningu dómsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert