Evrurnar fimm á Víðimýri

„Þetta er alveg upprunalegt,“ segir Sigríður Stefánsdóttir sem er kirkjuvörður …
„Þetta er alveg upprunalegt,“ segir Sigríður Stefánsdóttir sem er kirkjuvörður á Víðimýri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ferðamenn sem koma hingað heim að Víðimýri eru margir hverjir alveg undarlega sparsamir. Okkur telst svo til að hingað heim á hlað komi um 20 þúsund túristar á ári, en aðeins helmingur þeirra er tilbúinn að borga aðgangseyri í kirkjuna. Þó kostar þetta ekki nema 700 krónur eða fimm evrur. Margir snúa við þegar þeir sjá skiltið hér þar sem þetta stendur.“

Þetta segir Sigríður Stefánsdóttir á Víðimýri í Skagafirði í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Víðimýrarkirkja, sem er sóknarkirkja íbúa í Varmarhlíðarþorpi og þar í kring, er með fjölsóttari ferðamannastöðum. Torfkirkja þessi er raunar alveg sér á báti, reist árið 1834 og er enn upphafleg að allri gerð, svo sem innviðir og ýmsir innanstokksmunir. Snemma á 20. öldinni var orðið nokkuð tvísýnt um afdrif kirkjunnar sem þá var mjög farin að láta á sjá. Í þeim aðstæðum tók Þjóðminjasafn Íslands kirkjuna undir sinn verndarvæng og var þá hafist handa um endurbætur.

„Öðru hvoru þarf að lagfæra torfþak og hleðslur. Annað er alveg upprunalegt,“ segir Sigríður. Þau Einar Örn Einarsson, eiginmaður hennar, sem er hinn formlegi kirkjuvörður, hafa gegnt starfinu frá árinu 2004 en því fylgir sú skylda að búa á staðnum.

Heimsækja kennarann

„Við bjuggum áður úti á Sauðárkróki, en að fara aftur í sveitina var fínt því hér á næsta bæ eru rætur mínar. Ég hélt þó áfram að vinna úti á Krók, þar sem ég er kennari á grunnstiginu. Kenni börnum í 1. til 4. bekk og í 2. bekk koma krakkarnir alltaf í sveitina. Ég skal ekki segja til um áhuga þeirra á kirkjunni en þeim hefur þó alltaf fundist upplifun að heimsækja kennarann sinn í sveitina,“ segir Sigríður um ánægjulega heimsóknir nemenda sinna.

Skötuhjú frá Danmörku

Stærstur hluti kirkjugesta á Víðimýri er erlendir ferðamenn.

„Útlendingarnir eru um 97% allra sem hingað koma. Fyrir nokkrum árum komu hingað t.d. skötuhjú frá Danmörku sem fannst þetta slík upplifun að þau mættu aftur ári seinna til þess að láta gifta sig. Þau hafa komið hingað reglulega síðan,“ segir Sigríður sem til skamms tíma var starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands. Fyrir skemmstu var svo sú breyting gerð að umsjón kirkjunnar var falin Byggðasafni Skagafjarðar. Er það vel við hæfi því víða í Skagafirði hafa torfbæir varðveist vel, mun betur en annars staðar á landinu.

Heldri konur sátu í stúkunni

Innréttingar í Víðimýrarkirkju eru um margt athyglisverðar. Þær þykja, segir á vef Þjóðminjasafns Íslands, bera vitni um rótgróna hefð í sætaskipan íslenskra kirkna eftir siðbreytingu. Í því birtast einnig ýmsir siðir sem giltu um rétt og stöðu karla og kvenna fyrr á tíð. Karlmenn sátu sunnanvert, heldri menn í kór en konur norðanvert og þær heldri í stúku.

Ýmsir gamlir munir eru í kirkjunni, sumir úr eldri kirkjum á staðnum. Altaristaflan, með ártalinu 1616, er líklega dönsk að uppruna og sýnir miðmyndin síðustu kvöldmáltíðina. Eru í kirkjum landsins einmitt afar margar slíkar altarismyndir, enda er máltíð frelsarans með lærisveinum sínum einn af hápunktunum í frásögnum Biblíunnar.

Margir af eldri gripum Víðimýrarkirkju eru nú varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands en kirkjan hefur verið hluti af húsasafni þess frá 1936. Þar er hún í dýru gildi höfð, en torfkirkjurnar á Íslandi eru orðnar fáar og má telja á fingrum handar sinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert