Flestir geti notið menntunar

Ljósmynd/Háskóli Íslands

Meðal þess sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ræddi í ræðu við brautskráningu skólans í Laugardalshöll í dag var mikilvægi menntunar í uppbyggingu samfélagsins. „Í mínum huga ber okkur brýn samfélagsleg skylda að stuðla að því að sem flestir fái notið þeirra varanlegu auðæfa sem menntastofnanir landsins búa yfir, óháð efnahag, kyni eða uppruna.“

Háskóli Íslands hefði frá upphafi haft þá köllun að veita nýrri þekkingu inn í samfélagið. Háskólamenntun virkjaði þrótt einstaklinganna til virkrar þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Jón Atli ræddi einnig fjármögnun háskólanna og menntakerfisins í heild og sagði Íslendinga aldrei mega láta stundarhagsmuni og skammsýni villa sér sýn í þeim efnum. 

„Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni,“ sagði rektor. Háskólinn yrði að geta treyst á að yfirvöld skildu mikilvægi menntunar og að þau yrðu á hverjum tíma að setja varanlega hagsmuni þjóðarinnar framar öðrum. Ræddi hann einnig aukið traust þjóðarinnar til Háskóla Íslands samkvæmt reglulegum mælingum undanfarin misseri.

„Það er algjör nauðsyn að velvild þjóðarinnar í garð Háskóla Íslands endurspeglist með áþreifanlegum hætti í fjárlögum og í stefnumörkun stjórnvalda fyrir háskólastigið í landinu. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum láta þau tækifæri sem nú blasa við Háskóla Íslands og þar með íslensku samfélagi ganga okkur úr greipum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert