Samtals 2.108 útskrifaðir í dag

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samtals útskrifast 2.108 kandídatar úr grunn- og framhaldsnámi við Háskóla Íslands í dag. Tvær athafnir fara fram í Laugardalshöll í Reykjavík, önnur fyrir kandídata úr framhaldsnámi, sem hefst klukkan 10:30, og hin fyrir kandídata úr grunnnámi, sem hefst klukkan 14:00.

Háskóli Íslands mun brautskrá alls 826 kandídata með 834 prófgráður úr framhaldsnámi, það er úr meistaranámi og kandídatsnámi, og 1.282 með 1.293 prófgráður úr grunnnámi með BA-, B.Ed.- og BS-gráður. Meðal brautskráðra verða fyrstu nemendurnir sem útskrifast með MIS-gráðu í upplýsingafræði frá félagsvísindasviði og MS-gráðu í verklegri eðlisfræði frá verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum: Félagsvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, hugvísindasvið, menntavísindasvið og verkfræði- og náttúruvísindasvið. Á félagsvísindasviði verða samtals afhent 712 prófskírteini, 432 á heilbrigðisvísindasviði, 202 á hugvísindasviði, 403 á menntavísindasviði og 378 á verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Samtals útskrifast því 2.108 kandídatar frá Háskóla Íslands 25. júní með 2.127 prófskírteini. 410 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands í febrúar síðastliðnum og því er heildarfjöldi brautskráðra á árinu 2.518.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert