Býður enska liðinu í ókeypis hvalaskoðun

Joe Hart og Gary Cahill væru eflaust glaðlegri í hvalaskoðun.
Joe Hart og Gary Cahill væru eflaust glaðlegri í hvalaskoðun. AFP

Norðursigling á Húsavík hefur boðið leikmönnum enska landsliðsins í ókeypis hvalaskoðun, eftir tap þeirra gegn Íslandi í gær. Lítil tilkynning var send út nokkru fyrir leik sem rataði í breska fjölmiðla, en The Guardian greindi frá tilboðinu fyrir helgi.

„Það rataði vissulega í fjölmiðlana að við værum svo sigurreifir hér á Húsavík og að við vildum vera höfðinglegir og bjóða þeim í hvalaskoðun eftir leikinn, svo þeir þyrftu ekki að snúa til síns heima og taka við öllu amstrinu sem fylgir því að tapa fyrir smáþjóð,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastóri Norðursiglingar. 

„Þetta var nú bara uppátæki hér hjá starfsmönnum Norðursiglingar. Hún rataði þessa leið og hefur vakið mikla athygli.“

Eftir að sigurinn var í höfn bætti Norðursigling tilboðið og býður stuðningsmönnum enska liðsins hvalaskoðun í dag, þeim að kostnaðarlausu. Guðbjartur segist ekki vita hvort einhverjir Englendingar hafi mætt nú í morgun, en tilboðið standi. „Ég hef ekki tekið stöðuna og séð hvort það sé að hrúgast hér inn fullt af Bretum. Við erum auðmjúkir og gerum það sem við getum gert fyrir Englendinga.“

Hvað enska liðið varðar, er Guðbjartur ekki viss um hvort þeir muni nýta sér tilboðið, enda ólíklegt að risið hafi verið hátt á liðsmönnum þess þegar þeir vöknuðu í morgun. „Við höfum ekki fengið neinar hringingar enn sem komið er. En velkomnir eru þeir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert