Fljúga frá Akureyri til Parísar

Íslenskir stuðningsmenn fagna eftir sigur Íslands á Englandi í gærkvöld.
Íslenskir stuðningsmenn fagna eftir sigur Íslands á Englandi í gærkvöld. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

„Það er uppselt í 50 sæta þotuna og við erum að taka nöfn á biðlista fyrir stærri vélina,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hjá Circle Air, sem hyggst bjóða upp á beint flug frá Akureyri til Parísar vegna leiks Frakklands og Íslands í 8 liða úrslitum Evrópumótsins á sunnudaginn.

Circle Air er nýlega stofnað fyrirtæki sem gerir út á tvær flugvélar í útsýnisflug fyrir ferðamenn. Hugmyndin kom upp í morgun en er nú komin á flug, í orðsins fyllstu merkingu. Búið er að tryggja 50 sæta leiguþotu sem mun fljúga frá Akureyri til Parísar á sunnudag, en vonir standa til þess að senda stærri þotu.

Þorvaldur Lúðvík segir biðlistann lengjast með hverri mínútu. Hann vonast til að hægt verði að staðfesta 170 manna þotuna en það komi ekki endanlega í ljós fyrr en seinna í dag eða í fyrramálið. Flogið verður frá Akureyri á sunnudagsmorgun og til baka að leik loknum.

„Hér hringja allar línur og þetta er dálítið gaman,“ segir Þorvaldur hlæjandi. Miðinn í 50 manna þotuna kostar 185.000 krónur fram og til baka en Þorvaldur segir verðið fara niður fyrir 150.000 krónur, takist að fá stærri vél. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert