Þrír menn réðust á öryggisvörð

Maðurinn vaktaði nýbyggingarsvæði. Myndin er úr safni.
Maðurinn vaktaði nýbyggingarsvæði. Myndin er úr safni. Haraldur Guðjónsson

Á sjötta tímanum í nótt var lögreglu á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt að þrír menn hefðu ráðist á öryggisvörð sem var að vakta nýbyggingarsvæði í miðborginni. Þar sem mennirnir fóru inn á svæði sem lokað er vegna framkvæmda ætlaði öryggisvörðurinn að ræða við þá en þeir réðust þá á hann.

Öryggisvörðurinn fékk meðal annars högg í andlitið. Mennirnir yfirgáfu vettvanginn áður en lögregla kom á vettvang. Í dagbók lögreglu, sem send var til fjölmiðla fyrir skömmu, kemur ekki fram hvort mennirnir séu fundnir.

Á níunda tímanum í morgun var tilkynnt um umferðaróhapp á Breiðholtsbraut. Þar hafði ökumaður jeppa misst stjórn á honum með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði á staur sem hafði að geyma umferðarmyndavél. Ökumanninn sakaði ekki en draga þurfti bifreiðina af vettvangi með dráttarbifreið.

Á tíunda tímanum í morgun var lögreglu í Hafnarfirði tilkynnt um tvær konur í annarlegu ástandi í bakaríi í verslunarmiðstöð. Var þeim vísað af vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert