Skattstofninn vex um 7,4%

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016.
Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016.

Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna nemur 1.138 milljörðum króna vegna tekna ársins 2015 og vex um 7,4% á milli ára samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins. Samanlögð álagning tekjuskatts og útsvars nemur 306,5 milljörðum króna og hækkar um 10,8% frá árinu 2014.

Álagningarseðlar ríkisskattstjóra eru aðgengilegir í dag en embættið hefur lokið álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016. Álagningin tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2015 og eignastöðu þeirra 31. desember.

Á meðal helstu niðurstaðna álagningarinnar er að framteljendum fjölgar um 2,1% á milli ára og eru þeir nú 277.606. Alls fá 181.639 einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 265.698 fá útsvar.

Almennur tekjuskattur nemur 134,3 ma.kr. og var lagður á tæplega 182 þúsund framteljendur. Gjaldendum fjölgar um 7,3% sem er töluvert meiri aukning en var á síðasta ári. Álagningin hefur aukist um 14,3% milli ára sem er nokkru meira en aukning á álögðu útsvari til sveitarfélaga. Skýringin á því er óvenjulítil hækkun á persónuafslætti á árinu 2015 en persónuafslátturinn er tengdur við hækkun vísitölu neysluverðs yfir árið.

Álagt útsvar til sveitarfélaga nemur 172 ma. kr. sem er 8,3% aukning á milli ára. Útsvar reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur nýtist upp í útsvarið. Ríkissjóður greiðir þannig að hluta eða öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum í formi ónýtts persónuafsláttar. Sú fjárhæð nemur 10 ma. kr. fyrir tekjuárið 2015, eða sem nemur 6% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.

Arður einstaklinga vex um tæpan fimmtung

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 17,9 ma. kr. og hækkar um 6,6% milli ára en rétt er vekja athygli á því að ársbreytingin er mjög mismunandi eftir tegundum fjármagnstekna. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar um 1,1%, eða í rúmlega 39 þúsund. Gjaldendum hefur fækkað mikið síðan frítekjumarki vaxta var komið á 2011 en við álagningu 2010 voru gjaldendur skattsins tæplega 183 þúsund.

Tekjur einstaklinga af arði nema 34,8 ma. kr. sem er 18% aukning frá fyrra ári og er arður stærsti einstaki liður fjármagnstekna að þessu sinni. Hagnaður af sölu hlutabréfa nemur 20,8 ma. kr. og lækkar um 15,4% milli ára meðan framteljendum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa fjölgar um rúm 16%. Skýringin á lækkun söluhagnaðar liggur án efa í því að í álagningu hans í fyrra var að finna nokkra einstaklinga með óvenjulega háan söluhagnað og þar af leiðandi fjármagnstekjuskatt. Vextir nema 27,5 ma. kr. og aukast um 6,5% frá árinu áður.

Leigutekjur nema 9,8 ma. kr. og aukast um 10% á milli ára. Fjöldi þeirra sem telja fram leigutekjur, samtals 7.134 einstaklingar, eykst lítillega á milli ára, eða um 0,5%.

Skuldirnar dragast saman en eignir vaxa

Framtaldar eignir heimilanna námu 4.535 ma. kr. í lok síðasta árs og jukust um 7,6% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 3.277 ma. kr. að verðmæti, eða um 72% af eignum, og jókst verðmæti þeirra um 8,2% á milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 820 á milli ára eða um 0,9%.

Framtaldar skuldir heimilanna námu um 1.719 ma. kr. í árslok 2015 og drógust saman um 2,7% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.146 ma.kr. og lækkuðu um 3% milli ára. Eigið fé heimila í fasteign sinni samsvarar nú 65% af verðmæti þeirra samanborið við 61% árið áður. Rúmlega 26 þúsund af um 96 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.

Frétt á vef fjármálaráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert