Börn líði ekki fyrir óskýra verkaskiptingu

Hafnarfjarðarbær.
Hafnarfjarðarbær. mbl.is/Sigurður Bogi

Hafnarfjarðarbær skorar á Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra að flýta vinnu við að skýra aðkomu ríkis og sveitarfélaga að þjónustu við langveik börn. Brýnt sé að niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst þannig að börn og fjölskyldur þurfi ekki að líða fyrir óskýra verkaskiptingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum vegna umræðu í fjölmiðlum síðustu daga um málefni langveikra barna.

Ríkisútvarpið hefur til að mynda fjallað um mál Björgvins Unnars Helgusonar, nítján mánaða drengs sem hefur búið á Landspítalanum frá fæðingu. Hann fæddist með þindarslit og hjartagalla.

Hann hefur ekki getað búið heima hjá sér vegna þess að foreldrar hans fá ekki nauðsynlega aðstoð frá hinu opinbera. 

Mæður hans fengu þó þær fréttir í dag að Hafnarfjarðarbær hefði samþykkt að veita syni þeirra nægilega mikla aðstoð svo hann geti búið heima hjá sér. Ríkið mun einnig koma til móts við þær og veita drengnum heimahjúkrun.

Í tilkynningunni frá Hafnarfjarðarbæ segir að ljóst sé að skýrar línur liggi almennt ekki fyrir um ábyrgð opinberra aðila. Hefur Hafnarfjarðarbær verið í viðræðum við velferðarráðuneytið um aðkomu beggja að málaflokknum.

„Sveitarfélagið hefur þegar gengið langt hvað varðar þjónustu í þessum málum, umfram skyldur sveitarfélaga, því óviðundandi er að fjölskyldur séu settar í óvissuaðstæður meðan opinberir aðilar skera úr um hver eigi að veita þjónustuna. Heilbrigðismál heyra ekki undir félagsþjónustu sveitarfélaga og því mjög brýnt að sem fyrst liggi fyrir varanleg lausn sem ríkið kemur líka að.

Á meðan ábyrgð er óljós, eins og nú er, er hætta á ójafnræði fyrir notendur þjónustu þar sem úrlausn mála byggir á túlkun hvers sveitarfélags fyrir sig. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkt,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert