Stal úr búð vegna hungurs

mbl.is/Eggert

Lögreglumenn handtóku karlmann í miðborginni í nótt vegna þjófnaðar í matvöruverslun. Maðurinn bar því við að hann hefði verið svangur. Honum var sleppt en skömmu síðar var hann gripinn við að stela áfengi af veitingastað. Fékk maðurinn því að gista fangaklefa í nótt.

Maðurinn var fyrst handtekinn um kl. 1:30 í nótt að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fékk að fara sína leið eftir að hafa lofað því að fara beint í háttinn.  

Skömmu síðar var hins vegar tilkynnt um karlmann sem væri að stela áfengi á veitingastað skammt frá lögreglustöðinni.  

„Var þar sami maður á ferð og í matvöruversluninni og gistir hann nú fangaklefa,“ segir í dagbókinni.

Fyrr um kvöldið hafði annar maður verið handtekinn vegna innbrots í heimahús í miðborginni. Hann var sömuleiðis vistaður í fangaklefa í nótt og er málið í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert