Krefjast breytinga á fjölmiðlalögum

Stjórnendur Símans eru meðal þeirra sem skora á stjórnvöld að …
Stjórnendur Símans eru meðal þeirra sem skora á stjórnvöld að breyta fjölmiðlalögum og taka RÚV af auglýsingamarkaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnendur fimm einkarekinna ljósvakamiðla hafa skorað sameiginlega á stjórnvöld að breyta fjölmiðlalögum. Stjórnendur Símans, 365 fjölmiðla, sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, Útvarps Sögu og miðla Hringbrautar sendu í dag áskorun til allra þingmanna og stjórnarráðsins um að gera „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.“ 

Undir áskorunina skrifa Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, Orri Hauksson, forstjóri Símans, Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN, Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Sögu og Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Hringbrautar. Segjast þau telja að innlendir ljósvakamiðlar hafi vart möguleika til að halda áfram starfsemi sinni miðað við núverandi lagaumhverfi af margvíslegum ástæðum.

Vilja að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði

Telja aðilar að áskoruninni nauðsynlegt að Ríkisútvarpið (RÚV) verði tekið af auglýsingamarkaði eigi síðar en um áramót 2016-2017. Þá segir að með áframhaldandi þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði sé ljóst að einkaaðilar á innlendum auglýsingamarkaði verði af miklum tekjum sem gætu jafnvel haft mikil áhrif fyrir áframhaldandi rekstur þeirra, einkum í tilviki smærri miðla. Leggja aðilar til að útvarpsgjaldið verði hækkað til fyrra horfs og þannig verði áframhaldandi starfsemi RÚV tryggð.

Brýn þörf á því að gera breytingar á lögum

Þá segja undirritaðir aðilar að brýn þörf sé á því að gerðar verði breytingar á fjölmiðlalögum, einkum til að tryggja jafnræði milli innlendra félaga og erlendra varðandi kvaðir og skilyrði fjölmiðlalaga um meðferð á myndefni sem þeir bjóða íslenskum neytendum. Þá þyki núverandi löggjöf um fjölmiðla og flutning myndefnis að mörgu leyti óljós og óskýr. Breytingar á framsetningu og aðgengi myndefnis séu í lagalegu tómarúmi.

Ljóst sé að erlendir aðilar hafi verið leiðandi þegar kemur að tæknilegri þróun á aðgengi ólínulegs myndefnis. Þar sem þessir erlendu aðilar, á borð við Netflix og Hulu, hafi nú þegar umfangsmikil umsvif á íslenskum markaði þegar kemur að framboði á ólínulegu myndefni hafi kröfur íslenskra neytenda tekið stakkaskiptum á örfáum árum.

„Þykir því ljóst að innlendar myndefnisveitur verða að taka mið af slíkum kröfum neytenda í starfsemi sinni til að missa hvorki núverandi né mögulega viðskiptavini. Er því afar mikilvægt fyrir innlenda aðila að aðlaga umhverfi sitt að þeim tæknibreytingum sem erlendir aðilar hafa þegar tamið sér undanfarin ár. Afar ósanngjarnt er ef innlendir eftirlitsaðilar setja á hæpnum lagalegum grunni sérstakar kvaðir á innlendar veitur, sem hyggjast framleiða ólínulegt efni, sem alþjóðlegir risar búa ekki við. Gangi svo fram mun fjölmörg metnaðarfull framleiðsla á innlendu gæðaefni, annars vegar sem nú þegar er í undirbúningi og hins vegar sem gera má ráð fyrir að verði til síðar, ekki verða að veruleika.“

„Gæti haft óafturkallanleg áhrif á framtíðarhorfur íslenskra samkeppnisaðila“

Þá telja aðilar mikilvægt að stjórnvöld breyti lögum með þeim hætti að heimilað verði að setja ótextað myndefni á svokallaðar SVOD-efnisveitur, t.d. íþróttaleiki með erlendu tali og efni á sjónvarpsstöðvum þar sem áhorf mælist undir 5%. „Með þessum hætti væri hægt að draga úr núverandi ójafnræði milli innlendra og erlendra aðila á markaðnum.“

Auk þess eru stjórnvöld hvött til að grípa  til úrræða til að styðja við talsetningu á erlendu myndefni fyrir börn, sem og textun á innlendu myndefni fyrir heyrnaskerta áhorfendur.

Þá telja aðilar brýnt að stjórnvöld aðlagi án tafar íslensk skattalög að þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis, n.t.t. til að tryggja að erlendar fjölmiðla- og auglýsingaveitur greiði skatta og gjöld af tekjum sem þeir fá á íslenskum markaði. „Verði slíkar breytingar ekki gerðar á næstu misserum er ljóst að erlendir aðilar munu einungis auka umsvif sín á íslenskum markaði, að öllum líkindum á mjög skömmum tíma, sem gæti haft óafturkallanleg áhrif á rekstur og þar með framtíðarhorfur íslenskra samkeppnisaðila.“

Draga ætti úr ójafnræði í samkeppnisstöðu

Að lokum segja undirritaðir aðilar mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að skoða úrræði, mögulega með viðeigandi lagabreytingum, sem dregið gætu úr ójafnræði í samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla og auglýsenda.

„Í fyrsta lagi ættu stjórnvöld að skoða úrræði til að jafna stöðu innlendra fjölmiðla í alþjóðlegri samkeppni, svo sem varðandi kaup á erlendu efni. Í öðru lagi ættu stjórnvöld að tryggja jafnan aðgang leyfisskyldra fjölmiðla að reglulegum fjölmiðlamælingum. Í þriðja lagi ættu stjórnvöld að beita sér fyrir því að jafna stöðu innlendra línulegra sjónvarpsrása með íslenskt dagskrárefni hjá fjarskiptafyrirtækjum og/eða öðrum dreifingarveitum. Loks ætti að endurskoða ákvæði áfengislaga sem mæla fyrir um skýlaust bann við auglýsingum um áfengi, einkum m.t.t. alþjóðavæðingar á auglýsinga- og fjölmiðlamarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert