Viktor Orri gefur kost á sér fyrir Pírata

Viktor Orri Valgarðsson, 26 ára stjórnmálafræðinemi, ætlar að bjóða sig fram í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar. Þetta tilkynnti Viktor Orri á facebooksíðu sinni í dag.

Viktor Orri segist hafa sent inn formlega tilkynningu um að hann vilji bjóða sig fram til flokksins í dag.

„Það var ekki svo einföld ákvörðun, ég er virkilega hamingjusamur og spenntur fyrir doktorsnáminu mínu í Bretlandi og upphaflega ætlaði ég að leggja það fyrir mig næstu árin, frekar en að hella mér í stjórnmálin sjálf. Það var hins vegar í kringum áramótin 2014-2015 sem mér snerist hugur, vegna þess að mér fannst ég skynja að það væru einstakir tímar að nálgast í íslenskum stjórnmálum og einstök tækifæri til að virkilega breyta samfélaginu til góðs (nota bene, það var áður en fylgi Pírata rauk upp í könnunum),“ skrifar Viktor Orri.

Hann hefur áður boðið sig fram til stjórnlagaþings, árið 2010, og hann var á framboðslista Lýðræðisvaktarinnar í þingkosningunum árið 2013. 

En ég tók líka þátt í því að stofna Pírata, hef verið (mis)virkur meðlimur og stutt þau heilshugar frá upphafi. Sérstaklega deili ég metnaði þeirra fyrir beinna og virkara lýðræði, upplýstari og faglegri stjórnsýslu, tjáningarfrelsi, netfrelsi og auknu upplýsingaflæði, félagslegu frjálslyndi, sterkum einstaklingsréttindum - m.a. velferðarréttindum - pragmatískri efnahagsstefnu, skaðaminnkandi vímuefnastefnu og bara flestu því sem frá þeim kemur,“ skrifar Viktor Orri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert