Kynsjúkdómar færast í aukana

Landlæknir segir að möguleg skýring á fleiri smitum sé að …
Landlæknir segir að möguleg skýring á fleiri smitum sé að fólk noti smokka í minna mæli en áður. Morgunblaðið/Eggert

Það sem af er árinu 2016 hafa 16 tilfelli af sárasótt verið greind á Íslandi, sem staðfestir umtalsverða aukningu á sjúkdómnum á undanförnum tveimur árum. Þá greindust einnig fleiri tilfelli af lekanda það sem af er ári en á sama tíma í fyrra, eða 37 á móti 12 tilfellum í fyrra. Einnig hafa 16 einstaklingar greinst með HIV-sýkingu, þar af þrír með alnæmi. Klamydíutilfelli voru svipað mörg og í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Landlæknis sem birtar voru í dag og ná til fimm fyrstu mánaða ársins.

Af þeim 16 sem greinst hafa með sárasótt eru 14 karlmenn og tvær konur.  Árið 2015 greindust 27 manns með sjúkdóminn, þar af 24 karlmenn og þrjár konur. Flestir þeirra sem sýktust þá voru karlar sem stunda kynlíf með öðrum körlum. Ein barnshafandi kona greindist með sýkingu af völdum sárasóttar, en slík sýking getur valdið skaða á fóstri ef hún er ómeðhöndluð, segir í frétt Landlæknis.

Flestir sem greindust með lekanda voru karlmenn, eða 86%. Kynjaskipting klamydíutilfella er jafnari, en þar voru 43% hinna sýktu karlar. 

Áhættuþættir varðandi HIV-sýkingarnar tengdust kynlífi gagnkynhneigðra í sex tilvikum en kynlífi samkynhneigðra í þremur tilvikum. Fimm karlmenn og tvær konur höfðu sögu um fíkniefnaneyslu í æð. Athygli vekur að fleiri hafa greinst með HIV-sýkingu það sem af er þessu ári en á öllu árinu 2015. Helmingur þeirra sem greindust er af erlendu bergi brotinn, segir í frétt Landlæknis.

Meðalaldur þeirra sem greinst hafa með HIV-smit á árinu er 44 ár, en það telst nokkuð hátt. Óvenju margir með áður óþekkt smit greindust með alnæmi, lokastig sjúkdómsins, sem bendir til þess að viðkomandi hafi gengið með óþekkt smit í talsverðan tíma, segir Landlæknir. Velt er fyrir sér í fréttablaði Landlæknis að ástæða aukinna smita sé að hinir sem sýktir séu velji sér gjarnan rekkjunauta sem einnig eru sýktir. Þá noti ósýktir sér stundum lyf gegn veirunni í forvarnarskyni. „Hvort tveggja hafi þetta stuðlað að minnkandi notkun smokka og þannig rutt brautina fyrir aðra kynsjúkdóma eins og sárasótt og lekanda,“ segir í fréttabréfi Landlæknis.

Fréttabréf Landlæknis má lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert