„Hringdi í mig í algjöru sjokki“

Kona leggur blóm á umferðareyju við strandgötuna í Nice þar …
Kona leggur blóm á umferðareyju við strandgötuna í Nice þar sem 84 fórust í hryðjuverkaárás í gærkvöldi. AFP

Berta Guðjónsdóttir jógakennari býr í Nice skammt frá þar sem hryðjuverkaárásin var gerð í gærkvöldi. „Ég var ekki persónulega vitni að árásinni, en  skosk vinkona mín sem hefur búið hérna í 20 ár hafði beðið mig að koma og horfa á flugeldasýninguna með sér,“ segir Berta. „Ég var upptekin og vildi ekki fara, en hún varð vitni að atburðunum og hringdi í mig í algjöru sjokki meðan á árásinni stóð þar sem hún var að reyna að koma sér burt af svæðinu.“

Berta hefur búið í Nice sl. 13 ár og býr í fimm mínútna göngufjarlægð frá strandgötunni sem vörubílnum var ekið eftir. „Þegar ég geng niður götuna mína þá kem ég niður að Hótel Negresco þar sem atburðirnir urðu.“

Berta segir vinkonu sína hafa setið, ásamt öðrum vini, á grasbala á umferðareyju neðan við Hotel Negresco. „Flugeldasýningin var að enda þegar hún sá þennan trukk koma. Það var lokað fyrir alla umferð þannig að hún skildi ekkert í því á hvaða ferð hann var. Hún sá að lögreglan var að reyna að segja honum að hann gæti ekki keyrt þarna. Hann keyrði samt rólega áfram, en fór síðan að auka hraðann.“

Berta Guðjónsdóttir, sem hefur búið í Nice í 13 ár, …
Berta Guðjónsdóttir, sem hefur búið í Nice í 13 ár, segir íbúa borgarinnar vera í áfalli. Ljósmynd/Berta Guðjóns


 

Lágu fimm lík fyrir framan hana

Hún segir vinkonu sína fyrst hafa séð bílinn tilsýndar á Promenade d‘Anglais-strandgötunni. „Hann kom síðan að hótelinu og keyrði þar yfir fólk og þá lágu fimm lík fyrir framan hana. Bíllinn fór síðan hinu megin yfir á götuna og fór að sikk-sakka yfir á hjólabrautina og síðan aftur yfir á umferðareyjuna.“ Vinkona hennar sé heppin að bíllinn hóf för sína ekki þeim megin umferðareyjunnar þar sem hún sat.

„Hún hringdi í mig í algjöru sjokki á meðan þetta var að gerast, þar sem hún var að reyna að komast heim. Ég skildi ekkert hvað hún var að tala um. Hún sagði að umferðin væri öll að koma á móti sér.“ Fólk hafi hlaupið undan bílnum öskrandi á meðan hún var að reyna að koma sér í skjól hinu megin.

„Síðan heyrði ég í sírenunum og sá fólk koma upp frá lestarstöðinni í nágrenninu,“ segir Berta og kveðst þá hafa orðið vör við að eitthvað mikið var í gangi. Hún segir vinkonu sína vera í hálfgerðu taugaáfalli eftir atburðinn, en að hún sé sterk kona sem muni jafna sig.

Flugeldasýningin á Bastilludaginn er árlegur viðburður og líkir Berta henni við 17. júní hátíðarhöld hér heima. Hún hefur sjálf fylgst með flugeldasýningunni áður, en segist þó yfirleitt halda sig fjarri svo mikilli mannþröng eins og komi saman á strandgötunni á Bastilludaginn.

Strandgatan var lokuð og öryggisgæsla mikil

„Það voru tvær íslenskar konur í heimsókn hjá mér.  Við vorum í heimsókn í litlu sveitaþorpi og fórum, þremur tímum fyrr, úr strætisvagninum þar sem árásin var gerð.  Þá var búið að loka götunni og komnir upp vegatálmar, auk þess sem við sáum þar hermenn með riffla.“ Berta segir mikla öryggisgæslu hafa verið við alla viðburði í Nice frá hryðjuverkunum í París í nóvember á síðasta ári og svo hafi einnig verið að þessu sinni.

„Ég get þess vegna ekki skilið að þessi bíll skyldi ekki vera stoppaður áður en hann var kominn inn á strandgötuna, en það er örugglega ekkert hlaupið að því að stoppa svona stóran bíl.“

Berta segir Nice-búa vera í sjokki eftir árásina í gær. „Ég þurfti að fara út í búð í morgun og það var eins og allt væri í hægagangi. Það voru fáir á ferli og fólk var eiginlega hissa á að sólin hefði komið upp.“ Hún kveðst ekki hafa farið niður í bæ eftir árásina, en fólk hefur verið beðið um að halda sig fjarri strandgötunni á meðan unnið er að rannsókn á staðnum.

Hún segir alla þá vini sína, sem hún hefur heyrt í, vera heila á húfi. „Nema einn vina minna missti systur sína og maður hennar liggur nú á sjúkrahúsi.“  

Friðsöm og falleg borg

Nice er mjög vinsæll ferðamannastaður og koma margir ferðamenn til borgarinnar yfir sumartímann.

„Þetta er svo friðsöm og falleg borg að maður bara trúir þessu ekki. Ég sé um leiguíbúð og það var ungt par að koma frá Zurich og það hvarflaði alveg að þeim að hætta við,“ segir Berta en kveður þau svo hafa ákveðið að halda sínu striki þar sem öryggisgæsla sé væntanlega hvergi meiri en í Nice á þessari stundu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert