Vilja safna 100 milljónum

Björgvin ásamt syni sínum Baldri.
Björgvin ásamt syni sínum Baldri. Ljósmynd/Aðsend

Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka, ætlar að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni bankans í ágúst. „Ég bara hleyp hálft maraþon á skrifstofumannahraða,“ segir Björgvin Ingi í samtali við mbl.is.

Í ár safnar Björgvin styrkjum fyrir Hjálparliðasjóð Sjálfsbjargar sem hefur að markmiði að styðja fatlaða til ferðalaga. Hann hefur áður safnað fyrir ferðasjóð Guggu vinkonu sinnar sem bundin er við hjólastól en þau Björgvin hafa verið vinir síðan þau voru lítil. Vel hefur gengið að safna í ferðasjóð Guggu en Björgvin þykir hann geta gert meira.

Björgvin Ingi Ólafsson.
Björgvin Ingi Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sé það bara hvað þetta hefur gert fyrir Guggu,“ segir Björgvin, sem vonar að með þessu geti enn fleiri í hennar stöðu notið þess að ferðast. Hann hafði velt fyrir sér að stofna einhvers konar sjóð en komst þá að því að Hjálparsjóður Sjálfsbjargar var þegar til og þótti því tilvalið að safna styrkjum fyrir sjóðinn.

Björgvin segir Reykjavíkurmaraþon að mörgu leyti vera fyrst og fremst fjáröflun og ætlar sjálfur að láta á það reyna hvort hann geti hjálpað Hjálparliðasjóðnum að verða öflugri en hann er í dag. Hann segir starfsfólk Sjálfsbjargar hafa verið dálítið hissa þegar hann bar upp erindi sitt, en á sama tíma vissulega þakklátt fyrir framtakið enda fjármagn í sjóðnum af skornum skammti og því lítið hægt að veita af ferðastyrkjum.

Vonast eftir 100 milljónum

„Við ætlum að reyna að ná í heild hundrað milljónum í maraþoninu í Hlaupastyrk í ár,“ segir Björgvin um heildarmarkmið Íslandsbanka hvað varðar styrkjasöfnun í ár. Undanfarin ár hefur tekist að hjálpa góðgerðarfélögum að safna um 80 milljónum á ári en nú er markið sett hærra.

Sjálfur setur Björgvin markið nokkuð hátt en hann stefnir á að safna einni milljón króna fyrir Hjálparliðasjóðinn. Þegar hafa safnast yfir 100 þúsund krónur og kveðst Björgvin bjartsýnn á að hann eigi meira inni.

Léleg hlaupafyrirmynd

Björgvin Ingi hleypur sitt þriðja hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst.
Björgvin Ingi hleypur sitt þriðja hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir mér er þetta persónulegt,“ segir Björgvin og kveðst glaður ef honum tekst að stuðla að því að fleira fólk fái að komast út og upplifa ævintýri.

„Ég þarf nú bara að fara að hlaupa eitthvað,“ segir Björgvin sem vonast til að vera betri söfnunarfyrirmynd en hlaupafyrirmynd en hann hefur að eigin sögn ekki verið nógu duglegur að æfa fyrir hlaupið. „Ég er enginn hlaupari sko, það eru engin met sem verða bætt,“ segir Björgvin en þetta verður hans þriðja hálfmaraþon.

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Björgvin í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks. 

Upplýsingar um alla keppendur eru á heimasíðu Hlaupastyrks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert