Dæmt til glötunar frá upphafi

AFP

„Ég velti því upp hvort stofnun ríkis Suður-Súdana hafi verið dæmt til glötunar frá upphafi. Stærsta verkefnið sem Suður-Súdanar stóðu frammi fyrir var að koma á stöðugleika í ríkinu og mynda sameiginlegan sjálfumleika. En þarna ertu með þjóðernismisskipti, grímulausa spillingu, milliríkjadeilur og mjög brothætta innviði,“ segir Elís Orri Guðbjartsson sem nýverið skrifaði BA-ritgerð í mannfræði við Háskóla Íslands um þjóðarbrotið Núa sem býr í Suður-Súdan.

Grimmileg átök blossuðu upp af krafti í Suður-Súdan á föstudag. Átök hafa raunar staðið yfir í landinu með skömmum hléum í marga áratugi. 

Sjá frétt mbl.is: Örvæntingafullur flótti af vígakri

Í ritgerði sinni fjallar Elís Orri um mannfræðilega greiningu Bretans Evans-Pritchards á samfélagi Núa. Greiningin veitir skýrar vísbendingar um það hvað hefur valdið blóðbaðinu og deilunum sem staðið hafa yfir í ríkinu.

Elís Orri Guðbjartsson skrifaði lokaritgerð í mannfræði um Núa-fólkið í …
Elís Orri Guðbjartsson skrifaði lokaritgerð í mannfræði um Núa-fólkið í Suður-Súdan. Mynd/Håkon Broder Lund

Evans-Pritchard var sendur af breska heimsveldinu árið 1931 til þess að dvelja með Núum. Hann bjó á vettvangi og tók þátt í þeirra lífi til að skilja félags- og menningarlega hegðun Núanna.

„Breska heimsveldið vildi hafa mannfræðing á vettvangi til að geta gert skilmerkilega grein fyrir stjórnkerfinu svo auðveldara væri að ráðskast með Núana. Það var í raun markmið ferðarinnar,“ segir Elís Orri.

„Síðan gerir Evans-Pritchard grein fyrir stjórnkerfinu. Hann talar um að Núar flokkist ekki sem ríki heldur eining og stjórnkerfi þeirra er einingakerfi. Það samanstóð af ættbálkum sem sameinuðust þegar utanaðkomandi vá steðjaði að, en sundruðust vegna innbyrðis átaka þess á milli. Þeir skilgreindu sig í andstöðu við hverjir aðra. Hollusta og bandalög voru afstæð hugtök eftir því hvernig lá við hverju sinni.“

Sjá frétt mbl.is: Flýja grimmd og leita vonar

Nautgripirnir lífsviðurværi Núa

Elís Orri segir samfélag Núa hafa verið höfuðlaust, án löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds. 

„Einu lögin sem voru í hávegum höfð voru blóðhefnd og skyldan til hennar. Þeir bjuggu fyrst og fremst við siðferðislegar skyldur. Á þessum tíma bjuggu Evrópubúar við fullgild lög. Þetta var því ansi frumstætt samfélag. Það má líkja þessu við þjóðveldisöldina hér á landi þar sem þú gast ekki leitað réttar þíns nema í krafti styrks. Svona var ástandið þarna fyrir aðeins 80 árum. Það segir margt,“ segir Elís Orri.

Ástandið í Suður-Súdan er afar erfitt og mikil hungursneyð ríkir.
Ástandið í Suður-Súdan er afar erfitt og mikil hungursneyð ríkir. Grafík/AFP

Það mikilvægasta í samfélagi Núa voru og eru nautgripirnir. „Lífið og tilveran snýst í kringum þá. Þeir ákveða lífstaktinn. Þeir töluðu ekki um hádegi og kvöld heldur ákvarðaðist tímaskyn þeirra af til dæmis mjaltatímanum. Þeir fluttust búferlum tvisvar á ári. Einu sinni upp á hæðardrög þegar flæddi yfir árnar, og svo aftur niður af hálendinu þegar beitilandið þar kláraðist og regnvatnið hvarf.“

Nautgripirnir voru ekki ræktaðir til manneldis heldur af öðrum ástæðum. „Það voru söngvar samdir um nautgripina og þeir taldir hafa yfirnáttúruleg tengsl við andaheim. Þeir voru helsta uppspretta átaka og þannig er staðan enn í dag. 80% þjóðarinnar treystir á nautgripina sem sitt helsta lífsviðurværi og hvergi annars staðar í heiminum finnum við fleiri nautgripi miðað við höfðatölu. Þar sem þeir eru ekki ræktaðir til slátrunar taka nautgripirnir því mjög mikið pláss,“ segir Elís Orri.

„Löngunin í stærri hjörð hafði mikil áhrif á viðhorf Núa gagnvart nágrönnum sínum, en suma fyrirlitu þeir fyrir áhuga- og getuleysi á meðan þeir stóðu í illdeilum við aðra, sérstaklega þjóðarbrotið Dinka, vegna aðgangs að beitilandi.

Lengsta borgarastyrjöld Afríku

Saga Suður-Súdan er blóði drifin. Bretar og Egyptar stjórnuðu áður Súdan og skiptu landinu í raun í tvo hluta, óformlega. Aðskilnaðurinn var sagður af menningarlegum toga en var í raun bara til að einfalda stjórnun landsins. Á þeim tíma var innrætt í íbúa norðursins að íbúar suðursins væru ekki jafningjar þeirra. „Árið 1956 voru hlutarnir tveir sameinaðir eftir 22 ára aðskilnað og gekk sú sameining ekki vel, enda var skaðinn skeður eftir 22ja ára innrætingu.

Eiginlegt ríkisvald varð eftir í norðurhluta ríkisins og var búið að útskúfa suðrið ansi mikið. Þegar Súdan lýsir svo yfir sjálfstæði árið 1956 hélt ríkisvaldið kyrru fyrir í norðurhluta landsins ásamt pólitísku, menningarlegu og efnahagslegu þáttunum og mörkin á milli norðurs og suðurs urðu enn skarpari. Það sama ár lýsir suðrið yfir sjálfstæði og borgarastyrjöld brýst út. Stríðið stóð yfir í 16 ár og hálf milljón manna lét lífið. Það endaði á því að Suður-Súdan varð sjálfstjórnarhérað innan Súdans.“

Milljónir manna hafa flúið átökin í Suður-Súdan á undanförnum árum.
Milljónir manna hafa flúið átökin í Suður-Súdan á undanförnum árum. AFP

Frá 1972–1983 ríkti vopnahlé á milli ríkjanna tveggja. En árið 1979 finnast miklar olíuauðlindir innan Suður-Súdans. Súdan var á þessum tíma efnahagslega veikt og ríkisstjórnin í norðri falaðist eftir þessum auðlindum til að rétta úr kútnum. Árið 1983 brýst út annað borgarastríð sem varð lengsta borgarastríðið í sögu Afríku og stóð það yfir fram til ársins 2005.

„Það var þá sem alþjóðasamfélagið skarst í leikinn en tvær milljónir manna höfðu látist og tvöfalt fleiri þurft að flýja heimili sín,“ segir Elís Orri.

Aftur fékk Suður-Súdan sjálfsstjórn og flokkur sem kallast Sjálfstæðishreyfing Súdans tók við stjórnartaumunum. Var ríkinu lofað að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu að sex árum liðnum þar sem Suður-Súdanar fengju að kjósa um eigið sjálfstæði. Þetta sex ára tímabil var hins vegar afar illa nýtt að sögn Elísar Orra.

„Á þessu sex ára tímabili aukast útgjöld til hernaðarmála og urðu um helmingur ríkisfjármála suðursins. Litlu sem engu var eytt í innviði, þjónustu, atvinnu og samgöngur og stóð ríkið þó höllum fæti fyrir á þessum sviðum. Spilltar hendur stjórnmálamanna tóku svo stóran hluta afgangsins í eigin vasa. Saga ríkisins sem slík hefur því verið ein sorgarsaga.“

Sjálfstæðishreyfingin náði á ákveðinn hátt að sameina Suður-Súdana líkt og hún hafði gert í gegnum fleiri árhundruð. Barátta gegn óréttlátri meðferð Ottómana, Breta, Egypta og fleiri varð til þess að þessi þjóð án menningarlegrar sjálfsmyndar kaus sjálfstæði.

Hungursneyðin í landinu er alvarleg.
Hungursneyðin í landinu er alvarleg. AFP

Ráðherrastólarnir skiptast ójafnt á milli þjóðarbrota

„Í atkvæðagreiðslunni kusu 99% þjóðarinnar með sjálfstæði. Þarna getur maður ímyndað sér að íbúar Suður-Súdan vilji að ríkið sé sjálfstætt og að þeir hafi yfirráð yfir eigin auðlindum og að átökum muni linna. Raunin varð hins vegar allt önnur. Þarna búa um 200 þjóðarbrot. Dinkar og Núar skiptu völdunum á milli sín en eins og Evans-Pritchard hafði lýst um 80 árum áður, þá eru þessi tvö þjóðarbrot svarnir fjandmenn. Sama dag og atkvæðagreiðslunni um sjálfstæðið lauk braust út stríð á milli andspyrnuhersins og ríkisstjórnarinnar í 9 af þá 10 fylkjum landsins. Ríkisstjórnin var sökuð um að vera hliðholl Dinkum. Fyrsta mánuðinn létust 100 manns og þúsund manns innan árs. Að auki þurftu tugþúsundir að flýja heimili sín,“ segir Elís Orri.

„Þjóðarbrotin gátu barist saman gegn ranglæti sem þeir urðu fyrir af hendi nágrannanna. En eftir að sjálfstæðið varð staðreynd, var enginn sameiginlegur óvinur til staðar og íbúarnir samsama sig frekar eigin þjóðarbroti en hinu nýstofnaða ríki.“

Enn er deilt um landamærin

Þótt deilunum við Súdan hafi formlega lokið 2005 voru ekki öll deilumálin útkljáð. „Það sem gerist við stofnun Suður-Súdan er að landamæri eru að mestu ákveðin en ekki að fullu, því miður. Í stað þess að geta ákveðið öll landamærin eru þarna fimm svæði sem ekki var samið um sem öll eru meðal annars rík af olíu, vatni og beitilandi. Deilurnar um þessi landsvæði voru um tíma svo harkalegar að súdanska þingið lýsti yfir stríði á hendur Suður-Súdan eftir að Suður-Súdanar höfðu hertekið eitt svæðið í 10 daga og yfirgáfu það ekki fyrr en alþjóðasamfélagið greip inn í,“ segir Elís Orri.

Fólk bíður í röðum við neyðarbúðir Rauða krossins í landinu.
Fólk bíður í röðum við neyðarbúðir Rauða krossins í landinu. AFP

Deilurnar innan Suður-Súdans eru þó þær alvarlegustu þessa stundina. Valdabaráttan á milli þjóðarbrotanna er fyrirferðarmest og gegnumsýrir suðursúdönsk stjórnmál. „Þjóðernispólitík er þarna daglegt brauð. Forsetinn er af Dinka-ættum og hann skipar ráðherra. Fyrst um sinn voru 42% ráðherra ríkisstjórnarinnar af Dinka-ættum á meðan hin fjölmörgu þjóðarbrotin skipta á milli sín 58% af ráðherrastólunum. Forsetinn er síðan frá fylki sem nefnist Warrap og komu 10 af 30 ráðherrunum þaðan. Þjóðernið sameinar fólk mun meira en sjálfstæði þjóðarinnar, líkt og fyrir 80 árum þegar Suður-Súdanar samsömuðu sig frekar með minnstu einingunni.“

„Þegar eins augljós grímulaus spilling þrífst, grefur það ekki aðeins undan trausti á stjórnmálunum heldur einnig undan trausti ríkisins. Saga hins nýstofnaða ríkis er því blóði drifin og kemur til tára hvað eftir annað,“ segir Elís Orri að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert