„Fjölskyldan hjálpar mér yfir marklínuna“

Geir Ómarsson kemur í mark eftir að hafa synt 3,8 …
Geir Ómarsson kemur í mark eftir að hafa synt 3,8 km, hjólað 180 km og hlaupið maraþon. Eðlilega fagnaði hann mikið enda besti tími Íslendings. Ljósmynd/Þríþrautarsamband Íslands

Geir Ómarsson, úr þríþrautafélaginu Ægi3 í Reykjavík, bætti besta tíma Íslendings í svonefndum járnmanni um heilar sjö mínútur og 23 sekúndur á móti í Þýskalandi um helgina.

Geir kom í mark í Challenge Roth-þríþrautarkeppninni í Hamborg á tímanum átta klukkustundir, 49 mínútur og sex sekúndur. Geir, sem er 41 árs, varð í 4. sæti í sínum aldursflokki, 40-44 ára, og í 22. sæti af 3.500 keppendum.

Geir hóf að æfa þríþraut árið 2010 en þetta var aðeins þriðji járnmaðurinn sem hann tekur þátt í. Í járnmanni synda keppendur fyrst 3,8 kílómetra, hjóla síðan 180 kílómetra og hlaupa loks heilt maraþonhlaup, 42,2 kílómetra.

„Ég byrjaði árið 2010 í þríþraut af einhverju viti þegar ég fór í hálfan járnmann í Hafnarfirði. Vinur minn plataði mig í þá keppni og eftir hana settum við okkur markmið að fara heilan járnmann eftir fimm ár. Ég fór í minn fyrsta járnmann í fyrra og sá að ég gæti náð besta tíma Íslendings þannig ég lét vaða núna.“

Þríþraut er lífsstíll

Þríþrautarbrautir eru misjafnar og því er ekki talað um Íslandsmet heldur besta tíma. Keppnin í Roth í Þýskalandi er þekktasta járnmannskeppni í Evrópu og þar hafa náðst bestu heimstímar karla og kvenna. Svo var einnig um helgina því Jan Frodeno bætti karlametið um sex mínútur og kom í mark á 7:35,39.

Geir segir að litla áskorunin frá 2010 hafi undið upp á sig.

„Ég hef tekið framförum, verið laus við meiðsli og haldið góðum stöðugleika. Ég setti mér langtímamarkmið án þess að horfa mikið á einhver met. Þetta er orðið að lífsstíl hjá mér enda gott fyrir sál og líkama þó sumir setji spurningarmerki við æfingaálagið.“

Hrefna Thoroddsen eiginkona Geirs og dætur þeirra, Freyja og Arna, fóru til Þýskalands að styðja hann í keppninni. „Það skiptir öllu að hafa fjölskylduna á bak við sig, annars væri þetta ekki hægt. Hrefna og dætur mínar eru mínir hörðustu stuðningsmenn og fjölskyldan hjálpar mér yfir marklínuna. Það er gaman að hafa þær með sér í keppnunum og gott að koma í þeirra faðm eftir að hafa stigið yfir marklínuna. Ég hef prófað að fara einn í keppni og það er ekki það sama.“

Stórkostlegar stelpur

Fleiri en Geir náðu góðum árangri í þríþraut um síðustu helgi. Þórunn Gunnarsdóttir, Sarah Cushing og Amanda Ágústsdóttir kepptu í heimsmótaröð ITU. Þórunn vann sinn aldursflokk og varð í 21. sæti af 600 keppendum í ólympískri vegalengd. Sarah endaði önnur í sínum aldursflokki og í tíunda sæti. Amanda varð önnur í sínum aldursflokki og 10. af 1.200 konum í sprettþraut.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert