Ísland hvetur til stillingar

Lilja Dögg, utanríkisráðherra.
Lilja Dögg, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þróunin hefur verið mjög hröð og ófyrirsjáanleg og hvetur Ísland til stillingar og sátta," segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra um stöðu mála í Tyrklandi í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Þar segir að íslensk stjórnvöld hafi fylgst grannt með þróun mála og ráðherra telji hana mjög alvarlega. Ákvörðunin um að lýsa yfir neyðarástandi í landinu sé þar sérstakt áhyggjuefni sem og umfangsmiklar fjöldahandtökur og uppsagnir í skólum, lögreglu, stjórnsýslu og víðar.

Það er mikilvægt að tyrknesk stjórnvöld virði mannréttindi í hvívetna. Eitt er að draga þá til ábyrgðar sem skipulögðu og stóðu að valdaránstilrauninni annað er að stunda víðfeðmar hreinsanir af pólitískum toga," segir utanríkisráðherra. 

Staða mála í Tyrklandi í kjölfar valdaránstilraunarinnar voru rædd í dag á fundi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín. Þar tók Ísland undir yfirlýsingu Evrópuríkja þar sem lýst var stuðningi við lýðræðislegar stofnanir samfélagsins.

„Í yfirlýsingunni var lögð þung áhersla á að Tyrkland hefði í heiðri virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum og grundvallarreglum réttarríkisins og að landið stæði við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á vettvangi ÖSE,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

„Valdaránstilraunin síðastliðinn föstudag var harðlega fordæmd og mannfall var harmað og samstöðu var lýst með tyrknesku þjóðinni. Tyrknesk stjórnvöld voru hvött til að gæta hófs í viðbrögðum sínum, þ.m.t. að virða Evrópusamninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem m.a. leggur bann við dauðarefsingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert