Heimsækir árásarstaðinn reglulega

Stefán Már Kjartansson.
Stefán Már Kjartansson. Ljósmynd/Aðsend

Stefán Már Kjartansson býr í München ásamt eiginkonu sinni, þar sem hann starfar sem tölvunarfræðingur. Vinnustaður Stefáns er skammt frá Olympia-verslunarmiðstöðinni, þar sem skotárás var gerð í dag, og hann fer oft í verslunarmiðstöðina í mat. „Ég er í þrjá daga í viku þarna, svona 500 metra í burtu.“

Frétt mbl.is: Árásarmennirnir ganga lausir

Frétt mbl.is: Talið sýna skotárásina

Þegar blaðamaður náði tali af Stefáni var hann um 20 kílómetra sunnan við borgina og því ekki í henni þegar árásin var gerð. Hann segir verslunarmiðstöðina nokkuð stóra og alla jafna sé nokkuð af fólki í henni.

Samkvæmt heimildum hófst skotárásin fyrir utan McDonalds utan við verslunarmiðstöðina og segir Stefán árásarmanninn eða -mennina hafa þurft að fara yfir stóra götu til að komast inn í hana. „Það hefði verið talsvert verra ef hann hefði byrjað inni í verslunarmiðstöðinni því það er lokað rými og erfiðara að hlaupa í burtu.“

Nokkur umræða um voðaverk skapaðist í Þýskalandi eftir axarárás í lest nærri Würzburg síðastliðinn mánudag, en greint var frá því fyrr í dag að meira en þrír fjórðu Þjóðverja teldu land sitt bráðlega myndu verða skotmark hryðjuverkamanna. Stefán segist ekki hafa orðið var við almennar áhyggjur Þjóðverja við að slík árás endurtaki sig. „Nei í rauninni ekki. Þetta er bara tíðarandinn, þetta gerist.“

Frétt mbl.is: Telja Þýskaland skotmark hryðjuverka

Árásin í dag sé þó vissulega óþægileg fyrir hann sjálfan, en Stefán ætlar ekki að láta hana hafa áhrif á sig, enda eigi ekki að gera það. „Það verður furðulegt að fara þarna á þriðjudaginn í hádegismat, en ég ætla samt að fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert