Nafnavinirnir Karitas og Sumarliði

Hjörtur Sumarliði Tryggvason og Karitas Brynja Auðunsdóttir.
Hjörtur Sumarliði Tryggvason og Karitas Brynja Auðunsdóttir.
Þær kynntust í bumbusundi í Sundlaug Garðabæjar í haust, báðar óléttar að sínu fyrsta barni, og hafa verið vinkonur síðan. Framan af voru bumbubúarnir tveir að vonum aðalumræðuefni hinna verðandi mæðra. Síðan Karitas og Sumarliði, eða Karitas Brynja og Hjörtur Sumarliði, eins og hvítvoðungarnir voru nefndir fljótlega eftir að þeir litu dagsins ljós, Karitas 12. febrúar síðastliðinn og Sumarliði tæpum mánuði síðar, 5. mars.

„Börnin okkar eru nafnavinir,“ útskýra Sjöfn Ýr Hjartardóttir og Steinunn Þorsteinsdóttir, sem áttu það sameiginlegt að hafa hvor um sig ákveðið nöfn barna sinna fyrir margt löngu – eða þegar börn voru ennþá bara í framtíðarspilunum. Að vísu að því tilskildu að Steinunn eignaðist stelpu og Sjöfn Ýr strák. Og að pabbarnir mölduðu ekki í móinn, svo því sé haldið til haga.

Börn og bókmenntir

Eftirlætisbók beggja var og er tveggja binda skáldsaga Kristínar Marju Baldursdóttur, Karitas án titils og Óreiða á striga, sem kom út á árunum 2004 og 2007, en þar kemur Sumarliði, sonur kvenskörungsins Karitasar, þó nokkuð við sögu. En bókmenntir voru ekki efstar á baugi í bumbusundinu og hvorug hafði hugmynd um nafnapælingar hinnar. Ekki fyrr en í fyllingu tímans þegar Karitas, aðeins fárra vikna gömul, var formlega kynnt fyrir Sjöfn Ýri, að í ljós kom að Steinunn hafði nefnt dóttur sína í höfuðið á fyrrnefndri sögupersónu. Og Sjöfn Ýr hugðist nefna son sinn Sumarliða. Upp frá því snerust umræðurnar ekki bara um börn heldur líka bókmenntir. Einkum hina stórbrotnu Karitas, örlög hennar og alls hennar fólks.

„Sumarliði var hvers manns hugljúfi, óspar á knúsin og heillaði allar konurnar í Öræfasveit. Hann var kannski enginn draumakarakter, til dæmis skildi hann dóttur sína Silfá eftir hjá móður sinni, þótt hún hefði þvertekið fyrir að taka barnið að sér. Okkur fannst nafnið bara svo fallegt,“ segir Sjöfn Ýr, sem með „okkur“ á við kærastann, Tryggva Þór Kristjánsson. Hún hefur lesið báðar bækurnar mörgum sinnum, og fljótlega eftir að þau Tryggvi Þór rugluðu saman reytum segist hún hafa „látið hann lesa þær“. Tryggvi Þór tekur dræmt í orð konu sinnar um að hann hafi verið „látinn lesa“, enda kveðst hann hafa haft mikla ánægju af lestrinum.

Hvað gengur Bjarghildi til?

„Þegar við vorum komin upp í á kvöldin og bæði að lesa átti Tryggvi Þór til að segja kannski stundarhátt „nú er Sigmar [maður Karitasar og faðir Sumarliða] mættur í Öræfin, Halldóra er að veikjast, hvað gengur Bjarghildi [systir Karitasar] eiginlega til – eða eitthvað álíka,“ rifjar Sjöfn Ýr upp og útskýrir að Halldóra sé dóttir Karitasar, sem Bjarghildur hafi með klækjabrögðum fengið systur sína til að gefa sér. Kannski óþarfi að taka það fram, en Bjarghildur er ekki nafn sem fellur Sjöfn Ýri sérstaklega vel í geð og hún myndi aldrei nefna barn sitt í höfuðið á henni. Um Silfá gegnir öðru máli, en áður en þau Tryggvi Þór vissu hvort kynið var hafði hún viðrað hugmyndina. Hann var ekki hrifinn.

Þau eru vitaskuld hæstánægð með Hjört Sumarliða, sem að fyrra nafni heitir eftir afa sínum, eins og var reyndar hugmynd Tryggva Þórs. Foreldrarnir ljóstra því upp að drengurinn sé þó sjaldan kallaður báðum nöfnunum nema í viðurvist afa síns. „Við erum kannski pínu væmin því í okkar huga hefur nafnið Sumarliði líka aðra tengingu – okkur finnst sumarið hafa komið inn í líf okkar þegar við kynntumst fyrir tveimur árum,“ segja þau Sjöfn Ýr og Tryggvi Þór.

Karitas veldur heimþrá

Víkur nú sögunni að Steinunni og hennar fjölskyldu. Hún var búsett í Danmörku um tíu ára skeið og las Karitas án titils í fyrsta skipti þegar hún kom hingað heim um jólin 2004. Síðan margoft og seinni bókina líka. „Ég fékk alltaf jafnmikla heimþrá við lesturinn, allt var svo íslenskt; landslagið, maturinn og sagan sjálf. Nafnið Karitas sat í mér, konan sú var enginn auli, hún gekk í gegnum ýmislegt, fór út í heim og lét ekkert stoppa sig. Ég gæti alveg hugsað mér að Karitas mín fengi einhverja eiginleika hennar,“ segir Steinunn, sem eignaðist báðar bækurnar á sínum tíma, en lánaði og fékk aldrei aftur.“

Dálæti hennar á Karitas fór ekki fram hjá kærastanum, Auðuni Braga Salmarssyni, sem gaf henni bækurnar þegar hún gekk með Karitas Brynju. „Þótt hann hafi ekki ennþá lesið bækurnar, samþykkti hann nafnið umyrðalaust,“ segir Steinunn og tekur skýrt fram að lesturinn sé í forgangi á „to-do listanum“ hjá honum. „Auðunn Bragi vildi millinafn, sem var mér ekkert á móti skapi, enda nafn mömmu minnar,“ bætir hún við.

Skömmu eftir fæðingu dóttur sinnar las Steinunn báðar sögurnar um Karitas – einu sinni enn – og gerði stórmerkilega uppgötvun, að henni fannst. „Mamma Karitasar í bókinni heitir Steinunn, eins og ég, og besta vinkona Steinunnar heitir Jenný – eins og systir mín. Aukinheldur er Jón, faðir Karitasar, frá Ísafirði – eins og Auðunn minn.“

Nefnd en ekki skírð

Nafnaveisla Karitasar Brynju var haldin með pompi og prakt á heimili þeirra Auðuns Braga og flutti Steinunn af því tilefni smá tölu um tilurð nafnsins og merkingu þess. „Karitas er latneskt orð, sem þýðir kærleikur, og þekkist hvergi annars staðar í heiminum skrifað með Ká-i nema á Íslandi, þar sem það á sér langa hefð,“ segir hún.

Eins og Steinunn og Auðunn Bragi eru Sjöfn Ýr og Tryggvi Þór ekki í Þjóðkirkjunni, og því voru börnin nefnd en ekki skírð. Nafnaveislur beggja voru þó með svipuðu sniði og tíðkast alla jafna í hefðbundnum skírnarveislum í heimahúsum. „Ógleymanlegur dagur,“ segja foreldrar nefndra barna, þeirra Karitasar og Sumarliða.

Karitas var orðin svolítið þreytt í nafnaveislunni sinni.
Karitas var orðin svolítið þreytt í nafnaveislunni sinni.
Auðunn Bragi og Steinunn með Karitas Brynju rúmlega fimm mánaða.
Auðunn Bragi og Steinunn með Karitas Brynju rúmlega fimm mánaða. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Tryggvi Þór og Sjöfn Ýr með Hjört Sumarliða, rúmlega fjögurra …
Tryggvi Þór og Sjöfn Ýr með Hjört Sumarliða, rúmlega fjögurra mánaða. mbl.is/Freyja Gylfa
Sumarliði í sínu fínasta pússi í nafnaveislunni.
Sumarliði í sínu fínasta pússi í nafnaveislunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert