Launahvatar leiða til Katar

Jónas Grani Garðarsson flutti nýlega til Katar þar sem gríðarleg …
Jónas Grani Garðarsson flutti nýlega til Katar þar sem gríðarleg uppbygging á sér stað. Í bakgrunni má sjá eitt af þeim iðnaðarsvæðum sem eru í landinu. Um 1980 voru svo til engir innviðir í landinu. Ljósmynd/ Aðsend

„Hér er hlýtt, það er 41 gráða,“ segir Jónas Grani Garðarsson sem er mörgum knattspyrnuáhugamanninum kunnur, en hann lék lengstum með FH en einnig með Fram þar sem hann varð markahæsti leikmaður Íslandsmótsins árið 2006.

Jónas Grani venti nýlega kvæði sínu í kross og fluttist til Katar. Þar sinnir hann starfi sem sjúkraþjálfari á sjúkrahúsinu Asperta.

Jónas Grani frétti af starfinu í gegnum Einar Einarsson, sem einnig er sjúkraþjálfari í landinu og fyrrverandi knattspyrnumaður. Ekki gekk þrautalaust að komast til landsins. Það ferli hófst í nóvember árið 2014 en Jónas Grani hóf störf í febrúar sl. Hann dvelur þar einn um sinn en kona hans Eygló Traustadóttir sjúkraþjálfari og tvö barna hans munu flytja til Katar innan skamms. Eygló mun einnig starfa í Katar.

„Það er svolítið af peningum hérna... Ég er heilbrigðisstarfsmaður og það er svo að það skiptir ekki máli hvar þú ert staddur, sjaldnast eru góð laun í boði. Hér eru hins vegar fín launakjör og stóri munurinn er sá að ég mun fá launað frí í fyrsta skipti á ævinni, 43, ára gamall,“ segir Jónas Grani sem lengstum hefur verið verktaki.

Meðhöndlar ekki konur

Eins og gefur að skilja er um að ræða mjög ólíkan menningarheim og okkar. „Þetta er strangtrúað múslímaland og ég má ekki meðhöndla konur, konur mega hins vegar meðhöndla karla,“ segir Jónas Grani. Sjúklingar hans eru nær eingöngu íþróttamenn. „Reyndar er það svo að ef háttsettur katarskur maður vill komast að þá fær hann tíma,“ segir Jónas Grani. Að sögn hans njóta heimamenn forréttinda í landinu en einungis um 10% landsmanna eru Katarar, en um 2-2,5 milljónir manna búa í landinu, aðrir eru innfluttir og sinna hvers konar þjónustustörfum. „Þetta er algjör suðupottur, mestmegnis Asíubúar, Srí Lanka-búar, Indverjar og frá fleiri stöðum þar sem laun eru lág. Þeir vinna þjónustustörf. Það vinna engir Katarar í búð,“ segir Jónas Grani. „Þetta er í raun þannig að ef fimm manns standa í röð og Katari kemur aðvífandi, þá fer hann bara fram fyrir röðina og kemst að því hann talar arabísku. Maður segir náttúrlega ekkert við því,“ segir Jónas Grani og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert