„Þetta er þróun samfélagsins“

Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þúsundir druslna komu saman á Austurvelli nú síðdegis, þar sem Druslugangan safnaðist saman eftir að gengið hafði verið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og Laugaveg.

Dagskrá hófst með hóphrópum, þar sem druslur hrópuðu ýmist „Ég er drusla!“ og „Ekki nauðga!“. Því næst tóku við ræðuhöld. Þar steig á svið Guðrún Ögmundsdóttir, sem er tengiliður vistheimila og hefur unnið í málaflokknum kynferðisofbeldi í fjölmörg ár.

Hrósaði hún druslunum fyrir framtak sitt og sagði eldri kynslóðir nú smátt og smátt vera að skila skömminni, sem aldrei var þó þeirra. „Kynslóðin á undan minni steinþagði. Þetta var henni að kenna. Mín kynslóð þagði líka að mestu. Þetta var líka okkur að kenna. Eldri kynslóðir eru að vakna upp því nú vita þær að þeim er trúað. Ný kynslóð hefur tekið málin í sínar hendur.“

Þá ræddi Júlía Birgisdóttir stafrænt kynferðisofbeldi, en hún rauf þögnina um það í Kastljósi á síðasta ári og hefur barist fyrir úrbótum í réttarkerfinu í þeim málaflokki. Sagði hún rangt að ræða um hefndarklám í því samhengi, þar sem stafrænt ofbeldi hefði ekkert með klám að gera. Stjórnvöld þyrftu að bregðast við og skilgreina málaflokkinn á réttan hátt og eins og hann er; stafrænt kynferðisofbeldi.

Hjálmar Sigmarsson, sem hefur starfað lengi sem ráðgjafi hjá Stígamótum og sérstaklega unnið með karlkyns þolendum, ræddi mikilvægi þess að skapa samfélag þar sem er sjálfsagt, eðlilegt og leyfilegt að leita sér hjálpar eftir kynferðisofbeldi.

Að loknum ræðuhöldum tóku við tónlistaratriði. Tónlistarkonan Hildur hóf dagskrána og fylgdi Hemúllinn á eftir, „með reiðina og pönkið að vopni, tilbúinn að sparka í rassinn á feðraveldinu“, líkt og segir í auglýsingu viðburðarins. Friðrik Dór lokaði síðan skemmtidagskránni.

Ganga fyrir þá sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi

Vinkonurnar Sara Dröfn, Andrea Elísabet og Sólrún Ösp voru í göngunni til að styðja þá sem lent hafa í kynferðisofbeldi. Þetta var fyrsta gangan sem Sara gengur og segir hún stuðninginn sem felst í göngunni mikilvægan. „Ég geng fyrir Stígamót og ég geng fyrir sjálfa mig og alla þá sem lent hafa í kynferðislegu ofbeldi.“

Sara Dröfn, Andrea Elísabet og Sólrúp Ösp.
Sara Dröfn, Andrea Elísabet og Sólrúp Ösp. mbl.is/Árni Sæberg

Andrea og Sólrún mættu einnig í gönguna í fyrra og segjast hafa tekið þátt í dag til að styðja alla þá sem lent hafa í kynferðisofbeldi. „Við þekkjum fólk sem hefur lent í því og göngum fyrir það.“

„Nei, var að vinna, því miður. Ég var að koma hingað núna“, segir Ísak Lane Martin Vilmundarson á Austurvelli, þegar hann er spurður hvort hann hafi gengið frá Hallgrímskirkju. „Ég held ég hafi verið að vinna í hvert einasta skipti, því miður. En ég held ég hafi fengið að sjá í hvert einasta skipti þegar hún endar við Hallgrímskirkju, því ég vann þar við hliðina á.“

Ísak Lane Martin Vilmundarson.
Ísak Lane Martin Vilmundarson. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segist vera kominn á Austurvöll til að heyra ræðurnar og segir framtakið frábært og málstaðinn góðan. „Mér finnst þetta vera þróun samfélagsins einhvern veginn. Þetta gamla viðhorf að fórnarlambið geti verið orsök þess sem kemur fyrir það – mér finnst það ekki virka í dag. Það er ekki rétt.“

Spurður hvort hann telji viðhorfið vera að breytast svarar Ísak: „Mér finnst þetta vera að skána, en það er langt í land. Það eru margir sem maður talar við sem eru á hinni blaðsíðunni finnst mér. Það breytist vonandi með tímanum, sem fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert