Lögreglumenn næstum eknir niður

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Minnstu munaði að tveir lögreglumenn væru eknir niður við Stekkjarbakka í Reykjavík í gær. Mennirnir voru að vinna á vettvangi umferðarslyss en ökumennirnir voru ekki með athyglina í lagi og keyrðu þá næstum því niður.

Stefnir Snorrason slökkviliðsmaður segist í samtali við mbl.is muna eftir fjórum tilvikum á undanförnum vikum þar sem staðið hefur mjög tæpt á því að stórslys yrði þegar lögregla og slökkvilið hafa verið að störfum á vettvangi.

„Við erum að reyna að loka vettvangi með stórum bílum. Svo þegar fólk kemur að og sér bláu ljósin, þá hættir það einhvern veginn að fylgjast með ökutæki sínu,“ segir Stefnir.

„Þannig að við biðlum til fólks að missa ekki einbeitinguna, þó svo að það sjái blá ljós, og fylgja settum reglum.“

Hann bendir meðal annars á að þrír slökkviliðsmenn hafi látið lífið á Norðurlöndunum á síðasta ári vegna þess að ekið var á þá er þeir voru að störfum á vettvangi.

Sýni þolinmæði og biðlund

Hann segir að minnstu hafi munað að ekið hafi verið á tvo lögregluþjóna við Stekkjarbakka hvorn í sínu tilvikinu í gær. Ökumönnunum hafi tekist að nauðhemla í tæka tíð. „Í einu tilvikinu reyndi meira að segja ökumaður bifreiðar að troða sér á milli bíla sem voru að loka vettvangi,“ segir hann.

Bláu viðvörunarljósin gefi til kynna að ökumenn eigi að fara hægt um og vera varkárir um sig.

„Við biðlum til fólks að sýna okkur þolinmæði og biðlund og aka varlega fram hjá vettvangi eftir fyrirmælum lögreglu, en einbeita sér samt að ökutækinu á veginum. Við sem erum að vinna á vettvangi einbeitum okkur aðeins að því og getum ekki fylgst með því í hnakkanum hvort ökumenn nálgist okkur. Við verðum að treysta á að hinn almenni borgari átti sig á því að hér eru menn að störfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert