Kosningar þegar verkefnum lýkur

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tekin var ákvörðun um það í vor að halda stjórnarsamstarfinu áfram, ljúka mikilvægum málum og boða síðan til kosninga. Þingið var mjög starfsamt í apríl og maí. Það gekk mjög vel og ég hef enga ástæðu til að ætla að það verði ekki eins í ágúst og september.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is vegna þeirrar umræðu sem verið hefur í gangi undanfarna daga í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði ekki víst að þingkosningar færu fram í haust. Forsenda þess væri að hægt yrði fyrst að klára ákveðin verkefni ríkisstjórnarinnar.

„Það liggja fyrir þinginu mjög mikilvæg verkefni sem við ætlum að klára áður en við göngum til kosninga og að því gefnu að þetta gangi allt saman upp þá verða að sjálfsögðu kosningar í framhaldi af því,“ segir Sigurður Ingi. „Ríkisstjórnarsamstarf gengur út á það að klára mál í samstarfi við þingið. Það samstarf gekk mjög vel í vor og ég hef enga ástæðu til að ætla að það gangi ekki með sama hætti núna síðsumars og fram á haust.“

„Ég er bjart­sýn­ismaður að eðlis­fari“

Sigurður segir að þar sé um að ræða mál sem ekki hafi tekist að ljúka í vor og verkefni sem stjórnvöld hafi tilkynnt að yrðu lögð fyrir þingið. Þar á meðal afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki, möguleika á að nýta séreignasparnað til þess að lækka höfuðstól lána og taka á verðtryggingunni og tillögur að stjórnarskrárbreytingum sem unnar hafi verið í samstarfi allra flokka. Langt sé í tækifæri til þess að breyta stjórnarskránni ef tækifærið nú verði ekki nýtt.

„Þannig að þarna er um að ræða fjölda mikilvægra mála sem skipta land og þjóð miklu og eins og ég segi þá hef ég enga ástæðu til að ætla annað en að stjórnarandstaðan og allir í þinginu taki höndum saman við að ljúka þeim og að því loknu verður gengið til kosninga,“ segir Sigurður Ingi enn fremur.

Spurður að lokum hvað verði ef þetta gengur ekki upp segir hann: „Ég er nú bara þannig gerður að ég er bjartsýnismaður að eðlisfari og vísa bara til þess hvernig þetta gekk í vor. Við erum kosin til þess að þjóna fólkinu með því að sitja á þinginu og setja lög og ég hef enga trú á öðru en að fólk ætli að halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert