Stefnir í fjölmenna Þjóðhátíð

Þjóðhátíðargestir.
Þjóðhátíðargestir. mbl.is/Guðmundur Sveinn Hermannsson

„Hún er mjög góð, eiginlega virkilega góð“, segir Hörður Orri Grettisson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, um miðasölu á hátíðina í ár.

Hann segir söluna vera svipaða og í fyrra og því megi búast við sambærilegum fjölda og þá, sem samkvæmt lögreglu var um 15.000 manns. „Miðað við að hér í Eyjum er besta veðurspáin um helgina reiknum við með miklum fjölda.“

Stærstur hluti miðanna er líklega þegar seldur, en Hörður reiknar með því að um 70-80% miða hafi selst í forsölu þau ár sem hann hefur setið í þjóðhátíðarnefnd, enda sé miðaverðið mun hærra þegar keypt er við hliðið, auk þess sem menn kaupi miða snemma til að tryggja samgöngur.

„Það er orðinn hausverkur að komast hingað, sem er þessi takmarandi þáttur á fjölda hér í Vestmannaeyjum, samgöngurnar.“

Svo virðist því ekki sem Frakklandsfarir fjölmargra Íslendinga í tengslum við Evrópumótið í fótbolta ætli að koma niður á Þjóðhátíð. Hörður segir nefndina hafa rætt þetta margoft, gríðarleg samkeppni sé við hátíðina í ár og nefnir þar Secret Solstice, tónleika Justins Biebers og Muse.

Hins vegar virðist nóg vera til hjá Íslendingum um þessar mundir og verða því væntanlega um 15.000 manns í Eyjum um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert