Vigdís kærir níðskrif á netinu

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram kæru vegna ærumeiðandi ummæla á netinu. Þetta kemur fram á facebooksíðu hennar.

„Teningunum er kastað - eftir rúmlega sjö ára níðskrif um mig á netinu - gekk ég á fund lögreglunnar og lagði fram kæru vegna ærumeiðandi ummæla og skrifa. Nú fer málið í ferli,“ segir Vigdís en tilefnið er listi sem vefsíðan Sandkassinn birti eftir helgi yfir tuttugu einstaklinga sem sagðir voru vera „nýrasistar“. Vefsíðunni hefur nú verið lokað en þar sagði að nýrasistar væru þeir sem verið hefðu áberandi í þjóðfélagsumræðunni og beitt sér gegn fólki á grundvelli þjóðernis, litarháttar eða uppruna á Íslandi og fjölmenningar.

Fyrir utan Vigdísi var meðal annars Gústaf Adolf Níelsson sagnfræðingur á listanum sem og Jón Magnússon, fyrrverandi alþingismaður, og Ásmundur Friðriksson, núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Einnig Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Gústaf Adolf segir á facebooksíðu sinni í dag að hann hafi líkt og Vigdís kært málið til lögreglu. Með listanum hefði lífi þeirra einstaklinga sem settir hafi verið á hann verið stofnað í hættu í ljósi hryðjuverkaárása sem gengið hafi yfir Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert