„Boðberi nýrra tíma“

Guðni Th. Jóhannesson við embættistökuna í Alþingishúsinu í dag. Guðni …
Guðni Th. Jóhannesson við embættistökuna í Alþingishúsinu í dag. Guðni er boðberi nýrra tíma í embætti forseta að mati Grétars Þ. Eyþórssonar stjórnmálafræðings. mbl.is/Freyja Gylfa

„Eitt af því sem stendur upp úr í ræðu nýs forseta er að hann undirstrikaði að við værum orðin fjölmenningarsamfélag og það væru breyttir tímar í þeim efnum,“ segir Grétar Þ. Eyþórsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, um innsetningarræðu Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

„Síðan undirstrikaði nýr forseti þann skilning sinn að það væru kosningar í haust, sem var kannski ágætt innlegg í þessa eilífu umræðu um það hvort það verði kosningar eða ekki.“

Guðni nefndi einnig breytingar á stjórnarskránni í ræðu sinni og segir Grétar Guðna hafa nefnt fyrir kosningar að stjórnarskrárbreytingar væru augljóslega eitthvað sem væri framundan. „Hann ítrekar þá afstöðu sína,“ segir Grétar og bætir við að Guðni hafi þó ekki verið talsmaður þeirra gagngerru breytinga sem sumir vilji sjá á stjórnarskránni.

Spilverk þjóðanna ekki alltaf þótt viðeigandi

Nýjum forseta fylgi breyttir tímar og Guðni undirstriki það í ræðu sinni og embættistöku. „Við erum að sjá frjálslyndari nálgun við þessa athöfn þegar forsetinn er farinn að vitna í texta frá Spilverki þjóðanna. Það hefði einhvern tímann ekki þótt viðeigandi en er það alveg í dag.

Við erum að fá nýja tíma á Bessastaði, það er tilfinningin,“ segir Grétar og bætir við að Ólafur Ragnar hafi enda verið búinn að gegna embættinu lengi. „Það voru kannski engin stórtíðindi í ræðu Guðna, heldur undirstrikaði hún frekar margt af því sem hann hefur áður sagt og manni virðist að hann verði um margt boðberi nýrra tíma og hafi aðra nálgun en Ólafur Ragnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert