Heyrði tvo skothvelli í Iðufelli

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út núna í kvöld vegna skothvella sem tilkynnt var að hefðu heyrst í Efra-Breiðholti. Þetta herma heimildir mbl.is. Búið er að loka götum og verið að snúa bílum við sem ætla inn í hverfið.

Blaðamaður mbl.is er á staðnum og segir að búið sé að loka hverfinu við gatnamót Suðurfells og Torfufells. Lögreglan er á hreyfingu um svæðið og sérsveitarbíll ók þar inn. 

Uppfært 22:14: Lokun lögreglunnar nær yfir nokkurn hluta Fellahverfisins. Samkvæmt upplýsingum mbl.is kom upp atvik við söluturninn í Iðufelli, en ekki liggur fyrir að svo stöddu hvers eðlis það atvik var. Samkvæmt blaðamanni á staðnum eru vopnaðir lögreglumenn á staðnum og vinnur lögregla nú að því að yfirheyra vitni. 

Uppfært 22:23: Að sögn vitna sem blaðamaður mbl.is ræddi við á staðnum brutust út slagsmál á planinu fyrir utan söluturninn í Iðufelli fyrr í kvöld. Lögreglan mætti þá á staðinn en fór stuttu síðar á braut. Seinna urðu aftur átök og sagðist vitnið í samtali við mbl.is hafa heyrt tvö byssuskot og þá hringt á lögreglu. Almennir lögreglumenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem eru á staðnum hafa vopnast og bera skammbyssu. 

Uppfært 22:30: Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur ekki borist tilkynning um að neinn hafi verið skotinn, en lögregla leitar að meintum byssumanni.

Uppfært 22:35: Að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, barst tilkynning um skothvelli í Fellahverfi. Segir hann að unnið sé að því að skoða málið nánar en ekki sé talið að um hættuástand sé að ræða á svæðinu. Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir skoti að sögn Margeirs.

Fréttin verður uppfærð.

Lögreglan hefur lokað nokkrum götum í Breiðholti vegna málsins.
Lögreglan hefur lokað nokkrum götum í Breiðholti vegna málsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert