Birtir nýjar upplýsingar um Geirfinnsmálið

Ómar Ragnarsson hefur sent frá sér bókina Hyldýpið, sem fjallar …
Ómar Ragnarsson hefur sent frá sér bókina Hyldýpið, sem fjallar um Geirfinnsmálið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ómar Ragnarsson hefur sent frá sér bókina Hyldýpið, sem fjallar um Geirfinnsmálið, en hann skrifaði bókina að mestu fyrir 14 árum síðan. 

Bókin byggir á viðtölum við eina persónu, sem „lýsir mannshvarfi á hendur sér í lok bókar“ og „varð að leiksoppi örlaganna með því að dragast inn í þennan hræðilega atburð,“ segir í formála Hyldýpisins.

Ómar segir bókina uppgjör tveggja persóna sem komu að málinu. Spurður hvort bókin varpi ljósi á hvað raunverulega gerðist, segir hann lesendur verða að meta það. „Það er það sem er svo erfitt að meta. Það verður eiginlega hver lesandi að meta hvort þessi frásögn sé svo pottþétt að hún verði hinn endanlegi sannleikur.“

Ómar segist hafa fallið á tíma með útkomu bókarinnar á sínum tíma og svo hafi önnur verkefni tekið við. Fyrir tveimur árum hafi hann rekist á handritið aftur, þegar hann stóð í flutningum, en það hafði verið týnt megnið af þessum árum.

„Nú eru miklu meiri líkur á að málið verði afgreitt óupplýst en nokkru sinni fyrr. Meðan að þetta stig er núna, gat ég eiginlega ekki setið kyrr. Ég ákvað að gefa bókina út og þá geta menn aðeins velt þessu fyrir sér í víðara samhengi,“ svarar Ómar, spurður hvers vegna Hyldýpið komi út núna.

„Ef þetta var ekki svona, eins og sagt er, að þetta hafi gerst á þennan hátt 1974, er þá ekki kominn tími til að athuga hvernig hefði það getað gerst annars?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka